Þráinn Jónsson fyrrverandi oddviti kvaddur

Þráinn Jónsson, fyrrverandi oddviti Fellahrepps, lést 11. desember og fór útför hans fram frá Egilsstaðakirkju miðvikudaginn 19. desember. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þakkar honum fyrir gifturík störf að sveitarstjórnarmálum.

 

Sigmundur Þráinn Jónsson fæddist í Gunnhildargerði í Hróarstungu 5. október 1930. Þar ólst hann upp og varð síðar bóndi í nokkur ár. Lengst af stundaði hann þó veitingarekstur og rak bílaleigu á Egilsstöðum og í Fellabæ, ásamt ýmsum öðrum störfum. Þráinn tók virkan þátt í félagsmálum og sat í fjölmörgum stjórnum á vegum félagasamtaka og opinberra aðila.
Þráinn var fyrst kjörinn í hreppsnefnd í Tunguhreppi og sat síðan um árabil í hreppsnefnd Fellahrepps og var oddviti hreppsins, ásamt því að gegna embætti hreppsstjóra. Einnig starfaði hann mjög mikið á sviði sveitarstjórnarmála á fjórðungs- og landsvísu.
Hann sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður flokksins. Hann var skeleggur í sínum málflutningi, hrókur alls fagnaðar hvar sem hann fór og eftirminnilegur öllu sínu samferðarfólki.