Þórunn sýnir í Gallerí Bláskjá

Um þessar mundir stendur yfir sýning í Gallerí Bláskjá á verki Þórunnar Eymundardóttur. Sýningin ber heitið INRI en hægt er að sjá hana til 20. þessa mánaðar.

Um sýninguna segir höfundur: Sýningin INRI hverfist um hina innri verund lífsins; varðveislu þess sem lifir. Hið viðkvæma og hárfína jafnvægi milli þess sem gefur og þess sem tekur. Öll lögin vísa stöðugt í hvort annað og ekki ljóst í hvaða átt þræðirnir liggja.  Hið guðlega liggur í manninum sjálfum. Vertu þinn eiginn konungur. Þitt eigið ríki.

"mannfjöldin arkar niður að vatninu, á milli sín bera þau niðursuðuvélina, þegar þau ná að ströndinni hefjast einhverjir handa við að útbúa bálförina. Niðursuðuvélin líður út á vatnið, alelda. Aldrei meir mun hún sjóða niður ljósið, slökkva neistann innra með."

minnið byggir á munandanum. upphafningin liggur í upphafinu. ljósið kemur að innan. upplifunin liggur í upplifaranum.

Þórunn hefur stundað listnám í Barcelona og Amsterdam en hún lauk prófi í myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2006.