Í dag, 21. janúar, er Bóndadagur og þar með hefst þorri og þorrablótin með sinni sérstöku matarmenningu, gríni og skemmtunum. Í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði verður Þorrinn að þessu sinni blótaður á alls átta stöðum, auk þorrablóta í skólum og einkablóta. Í samræmi við langa hefð er fyrsta blótið á Egilsstöðum í kvöld, 21. janúar og fer það fram í Íþróttamiðstöðinni. Þetta er fjölmennasta blótið en gera má ráð fyrir að um 500 manns sæki það. Eldri borgarar á Héraði blóta einnig í kvöld í Hlymsdölum.
Fellablótið fer síðan fram í fjölnotahúsinu í Fellabæ föstudaginn 28. janúar og Vallablótið verður haldið á Iðavöllum laugardaginn 29. janúar. Föstudaginn 11. febrúar verður haldið sameiginlegt blót þeirra Eiða- og Hjaltastaðarþinghármanna í Hjaltalundi og í Skriðdalnum verður blótað laugardaginn 12. febrúar á Arnhólsstöðum. Í Hróarstungunni, í Tungubúð, verður svo haldið þorrablót laugardaginn 19. febrúar og loks verður þorrablót Jökuldælinga og Jökulsárhlíðarmanna í Brúarási laugardaginn 5. mars.
Þá munu nágrannarnir í Borgarfjarðarhreppi blóta í Fjarðarborg laugardaginn 22. janúar og í Fljótsdalshreppi verður blótað í Végarði laugardaginn 5. febrúar. Upplýsingar um önnur þorrablót á Austurlandi liggja ekki fyrir.
Vegna þorrablóts Egilsstaða, föstudaginn 21. janúar, verður Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum lokuð með eftirfarandi hætti: Miðvikudaginn 19. janúar, kl. 13, lokar íþróttasalurinn og Héraðsþrek lokar kl. 20. Fimmtudaginn 20. janúar lokar sundlaugin kl. 13 og þar með er íþróttamiðstöðin alveg lokuð til íþróttaiðkunar til laugardagsmorgunsins 22. janúar, þegar opnað verður á ný.