Þórhallur og Dagný handhafar Þorrans í ár

Þorrinn, sem er farandgripur, er handunnið listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum. Myndin er …
Þorrinn, sem er farandgripur, er handunnið listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum. Myndin er tekin af Facebooksíðu Þórhalls

Þorrinn var afhentur í 19. sinn á þorrablóti Egilsstaða á bóndadag, föstudaginn 22. janúar 2016, en sú hefð er komin á að hver þorrablótnefnd velur einhvern sem með vinnu sinni hefur gert samfélaginu gagn sem eftir er tekið.

Í ár hlutu gripinn Þórhallur Þorsteinsson og Dagný Pálsdóttir fyrir framlag þeirra til samfélagsins fyrir ómetanlega vinnu fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs í um 30 ár.

Þorrinn, sem er farandgripur, er handunnið listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum og sá sem hann hlýtur hverju sinni fær nafn sitt ritað á plötu á verkinu og hefur gripinn í sinni vörslu til næsta þorrablóts.

Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar, afhenti viðurkenninguna með þessum orðum:

„Ágætu þorrablótsgestir.

Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar tími þorrablótanna gengur í garð. Á þorrablóti leysist mikill kraftur og sköpun úr læðingi og úr verður ákveðinn galdur sem er erfitt að skýra en dásamlegt að njóta.
Um árabil hefur Þorrinn verið veittur á Þorrablóti á Egilsstöðum. Þorrinn er viðurkenning sem veitt er þeim sem skilað hafa mikilsverðu framlagi til samfélagsins á sviði félagsmála, menningar, lista, afþreyingar eða atvinnu og er ákvörðun þorrablótsnefndar hverju sinni hver hlýtur.
Í ár hefur þorrablótsnefndin tilnefnt sambýlisfólk og mun ég nú flytja samantekt nefndarinnar um ástæður þess að einmitt þetta fólk hlýtur Þorrann.


Handhafar Þorrans þetta árið er hugsjónafólk, sambýlingar og vinir vina sinna. Hann hefur margsinnis reynt að fá hana að altarinu en án árangurs. Á sínum tíma heillaði hann konuna með töffaraskap á fjöllum, flaug um á eigin flugvél, ók um á stórum 44 tommu jeppa og hafði óþrjótandi áhuga á náttúruvernd og fjallamennsku. Hún er einnig með ferðabakteríu á háu stigi og vill helst ferðast gangandi um landið berfætt með bakpokann sinn en þess á milli styður hún fjölskyldu og vini með margvíslegum hætti.

Í um þrjá áratugi hafa þau bæði unnið óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í þágu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Áður en áhugi á gönguferðum varð í tísku eins og nú er, ferðaðist hún með fullar rútur um landið, með Sveini Sigurbjarnasyni, í svokallaðar sumarleyfisferðir og gaf Austfirðingum tækifæri til að sjá eitthvað annað en Héraðið sitt. Hún á einnig heiðurinn af því að Árbók Ferðafélagsins hefur ratað á heimili fólks allt frá Bakkafirði að Breiðdalsvík síðustu þrjátíu árin, borin heim að dyrum og afhent persónulega. Margir hafa fengið að njóta samfylgda við hana í þessum bókaferðum, bæði ungir og gamlir.

Til fjölda ára hafa þau farið saman með ferðamenn um Lónsöræfi og Víknaslóðir og þá gjarnan ótroðnar og óhefðbundnar leiðir.

Þau tóku við keflinu af frumkvöðlunum sem hófu skálabyggingar og hafa í áranna rás unnið ötullega að enn frekari uppbyggingu skála, viðhaldi þeirra, stækkunum og síðast en ekki síst utanumhaldi um skála í eigu Ferðafélagsins á Víknaslóðum, í Kverkfjöllum, Geldingafelli, Egilsseli, Hvannalindum og í Snæfelli. Þau hafa sýnt fádæma dugnað og ósérhlífni hvað þetta varðar. Hann hefur tekið þátt í öllu ferlinu allt frá því að skipuleggja hvar væri best að staðsetja skálana á Viknaslóðum og einnig í Egilsseli við Kollumúlavatn, til þess að koma að reisingu og koma skálunum í það form að hægt sé að taka á móti gestum þar. Hann hefur sýnt einstaka útsjónarsemi í fjáröflun vegna skálabygginganna sem margir góðir félagsmenn og konur hafa tekið þátt í að gera að veruleika.

Skálabyggingarnar hafa verið þeim báðum mikið hjartans mál og hefur hann nú tekið saman byggingarsögu allra skála Ferðafélagsins sem samanstendur af tæplega fjögur þúsund ljósmyndum.

Í gegnum árin hefur hann séð til þess að skálarnir séu mannaðir góðum skálavörðum og hlúð að því fólki af einstakri natni. Þeir sem nýta sér skála ferðafélagsins sjá að þeim er vel við haldið og hvergi flagnaða spýtu að sjá, en slíkt gerist ekki sjálfkrafa. Þau sambýlingar hafa síðustu þrjá áratugina mætt í vinnuferðir þar sem tekið er til hendinni, hún hefur séð til þess að enginn fari svangur úr þessum ferðum, bakað og eldað ofaní fólk oft við erfiðar aðstæður auk þess sem þau hafa gjarnan nýtt heimsóknir til höfuðborgarinnar eða dvölina í Hveragerði til að sinna útréttingum og innkaupum á borðbúnaði, pottum og pönnum fyrir skálana. Hér eru tveir dugnaðarforkar á ferð þó hún segi sambýlismann sinn vera bestan í að skipuleggja og láta aðra vinna vinnuna fyrir sig og standi svo sjálfur með hendur í vösum og rífi kjaft.

Þau eru vinir vina sinna og kvaðalaust hafa þau aðstoðað margan samborgarnann til lengri eða skemmri tíma, suma í brýnni þörf en aðra ekki. Góðvilji þeirra skilað sér í auknum lífsgæðum hjá þeim sem notið hafa.

Handhafar Þorrans árið 2016 eru þau Dagný Pálsdóttir og Þórhallur Þorsteinsson.