Þörf fyrir lengingu Egilsstaðaflugvallar

Miðvikudaginn, 13. mars, var haldinn opinn fundur á vegum atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs þar sem kynnt var nýútkomin skýrsla um mat á þörf fyrir lengingu flugbrautar Egilsstaðaflugvallar og bætta aðstöðu á flugvellinum.

Fjölmenni var á fundinum, en Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs kynnti niðurstöður skýrslunnar auk þess sem Hafliði Hafliðason hjá Þróunarfélagi Austurlands kynnti verkefni, sem stefnt er að hefjist á næstunni, um tækifæri tengd flugvallarsækinni starfsemi. Skýrslan var unnin af Háskólanum á Bifröst fyrir Þróunarfélag Austurlands og Fljótsdalshérað.

Meðal niðurstaðna sem fram koma í skýrslunni er að þegar tekið er mið af þörfum flugrekanda sem nota Egilsstaðaflugvöll í dag og algengustu flugvélategundum lágfargjaldaflugfélaga í Evrópu með hliðsjón af því að nýir aðilar geti komið inn markaðinn á næstu árum, þá þurfi að lengja flugbrautina sérstaklega með þarfir Boeing 737-800, Boeing 787-800 og MD-90 í huga. Í skýrslunni kemur einnig skýrt fram hjá flugrekstraraðilum að til að lenging flugbrautar skili sér til flugrekanda þurfi jafnframt að uppfæra og endurnýja lendingarbúnað og kerfi sem til staðar er. Þá þurfi að stækka snúningsenda auk þess sem stækka þurfi flughlöð sem séu í dag of nálægt öryggissvæði flugbrautarinnar. Þá þurfi að bæta eldsneytisaðstöðu og tækjabúnað til hreinsunar flugbrautar. Loks kemur fram að um þessar mundir er verið að ljúka við 420m2 stækkun flugstöðvar sem gjörbreyta muni allri aðstöðu flugfarþega. Þrátt fyrir það sé takmarkað sætarými ef hýsa þarf tímabundið fjölda farþega vegna véla sem t.d. sökum ófærðar á Keflavíkurflugvelli þurfa að nota Egilsstaðaflugvöll sem varavöll.

Í skýrslunni kemur einnig fram mikilvægi Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar m.a. vegna þess að hann sé á öðru veðursvæði en Keflavíkurflugvöllur, aðstæður til aðflugs séu góðar og hindrunarlausar, flug falli afar sjaldan niður og að millilandaflug hafi ekki fallið niður vegna veðurs eða brautarskilyrða síðast liðin þrjú ár.

Í skýrsluna koma fram góðar upplýsingar um mikilvægi flugvallarins í eflingu ferðaþjónustu og fraktflugs á Austurlandi.  Með lengingu flugbrautarinnar og eflingu þjónustunnar skapast tækifæri til að efla þessa þætti og þar með að efla atvinnu í fjórðungnum.

Miðað við að komið sé til móts við þarfir flugrekenda, sem fram koma í skýrslunni, þarf flugbrautin að vera að lágmariki 2.240 metrar. Í viðauka við skýrsluna þar sem fjallað er um kostnað og gerð er nytjagreining er gert ráð fyrir að flugbrautin verði lengd um 150 metra til norðurs og alls 390 metra til suðurs, með öryggissvæðum. Þar er jafnframt gert ráð fyrir stækkun á flughlaði, flutning á eldsneytistönkum og leiðslum þeirra auk lagfæringar á aðflutningsljósum. Alls muni kostnaður við verkefnið vera um 825 milljónir króna.  Hluti fjárveitinga til verkefnisins hafa verið áætlaðar í lagtímaáætlun samgönguáætlunar. 

Fram hefur komið að heimamenn hafa væntingar til þess að framkvæmdum við allt verkefnið verði lokið árið 2012.

Skýrsluna er hægt að nálgast hér .