- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þjónustuhúsið á Vatnsskarði, sem Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur standa að, hefur verið tilnefnt til Menningarverðlauna DV 2016 í flokknum arkitektúr. Hönnuður hússins er Eirik Rönning Andersen frá Zero Impact Strategies.
Í dómnefndaráliti um þjónustuhúsið segir á DV:
Árið 2013 stóðu sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur í samstarfi við Arkitektafélag Íslands fyrir hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla. Að mati dómnefndar hefur þetta ferli skilað einstaklega vel heppnaðri niðurstöðu og dæmi um hvað einfaldleikinn getur verið sterkur.
Byggingin hefur fengið sterk karaktereinkenni sem tengjast formi Dyrfjalla en er á sama tíma mjög hógvær og einföld bygging sem þjónar hlutverki sínu í mikilli sátt við landslagið í kring. Byggingin er samsett úr tveimur aðskildum smáhýsum þar sem annað hýsir salerni en hitt er upplýsinga- og útsýnisrými. Á milli smáhýsanna myndast svo skarðið sem skírskotar í form Dyrfjalla. Lögð var mikil áhersla á að byggingin væri umhverfisvæn og þyrfti lítið viðhald og endurspeglast þetta í einföldu efnisvali. Útveggir eru úr forsteyptum einingum með svörtu basaltyfirborði frá Egilsstöðum og timburklæðningin í millirýminu er lerki frá Hallormsstaðarskógi.
Dómnefnd: Aðalheiður Atladóttir (formaður), Laufey Agnarsdóttir og Þórarinn Malmquist.
Hér má sjá umfjöllun um þau verkefni sem tilnefnd eru til Menningarverðlauna DV í arkitektúr. Á þessari síðu gefst lesendum jafnframt tækifæri til að taka þátt í kosningu um verkefnin:
http://www.dv.is/menning/2017/3/4/menningarverdlaun-dv-2016-arkitektur/
Þess er rétt að minnast að í nóvember í fyrra hlaut verkefnið Dyrfjöll – Stórurð, gönguparadís, sem þjónustuhúsið er hluti af, Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu.