- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Í dag, föstudaginn 28. október kl. 14.00 verður þjónustuhús á Vatnsskarði, fyrir ferðamenn, formlega tekið í notkun.
Sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur hafa síðan 2013 unnið saman að því að gera Stórurð að þeirri gönguparadís sem svæðið í nágrenni Dyrfjalla hefur allar forsendur til að vera. Einn liður í því er bygging þjónustuhúss á Vatnsskarði sem upphafsstað gönguferðar í Stórurðina. Þjónustuhúsið stendur á vesturbrún skarðsins, í um 400 metra hæð, þar sem útsýni er yfir Héraðsflóann, yfir í Smjörfjöll og inn Héraðið þar sem jafnvel má sjá glitta í Snæfellið í góðu skyggni.
Í þjónustuhúsinu er salerni og stórt kort af Dyrfjallasvæðinu, auk skilta sem greina frá gönguleiðum og náttúru svæðisins.
Arkitekt hússins er Eirik Rönning Andersen en um verklegar framkvæmdir sá Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar. Verkefnið er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Allir eru velkomnir.