- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þjóðleikur, leiklistarhátíð ungs fólks í samstarfi við Þjóðleikhúsið, fer fram í Sláturhúsinu, Egilsstöðum laugardaginn 6. maí. Sýningar hefjast klukkan 12:00 og fara þær fram á þrem sviðum í Sláturhúsinu. Það eru leikhópar frá fjórum grunnskólum á Austurlandi sem sýna leikrit eftir Auði Jónsdóttur og Ævar Þór Benediktsson. Allir eru velkomnir á leiksýningarnar en aðgangseyrir er kr. 2.500 fyrir armband sem gildir sem aðgangsmiði á allar sýningarnar.
Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem er haldin annað hvert ár. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráða og fleiri aðila á landsbyggðinni. Hvaða hópur ungmenna sem er getur tekið þátt í þeim landshlutum þar sem verkefnið er í boði. Á Austurlandi hafa það aðallega verið grunnskólarnir á svæðinu sem sett hafa upp leikrit í nafni Þjóðleiks. Hver hópur frumsýnir í sinni heimabyggð á þeim tíma sem honum hentar eftir áramótin. En lokahátíðin fer fram á Egilsstöðum, en Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs hefur frá upphafi haft umsjón með verkefninu á Austurlandi. Að þessu sinni sýna leikhópar frá Egilsstöðum, Eskifirði, Neskaupsstað og Reyðarfirði leikverkin Feita mamma eftir Auði Jónsdóttur og Morð eftir Ævar Þór Benediktsson.