- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þjóðleikur Austurlandi hlaut nýverið Menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Verðlaunin sem eru veitt árlega að fengnum tilnefningum eru veitt einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar á liðnu ári (starfsári SSA). Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í landshlutanum.
Í greinargerðinni sem fylgdi tilnefningunni til verðlaunanna segir m.a. Ávinningur Þjóðleiks hingað til hefur verið fjölþættur. Hann hefur haft mælanleg áhrif á áhuga ungs fólks og afstöðu til leikhúss á þeim landsvæðum sem verkefnið hefur náð til. Eftir að Þjóðleikur hóf göngu sína hafa skólar sums staðar boðið upp á valáfanga í leiklist og orðið hefur til nýr og frjór vettvangur til samvinnu fyrir kennara og aðra sem áhuga hafa á að vinna að leiklist með ungu fólki. Í því samhengi má t.d. nefna að haustið 2012 var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri sviðslista við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs sem hefur m.a. haft það hlutverk að undirbúa sviðslistabraut við Menntaskólann á Egilsstöðum. Tilnefninguna í heild má sjá hér.