Þjóðleikur að fara á stað í fimmta sinn

LEIKLISTARHÁTÍÐ FYRIR UNGT FÓLK Á LANDSBYGGÐINNI
Verður þinn hópur með í vetur?

HVAÐ ER ÞJÓÐLEIKUR?
Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem er haldin annað hvert ár og fer nú fram í fimmta sinn. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráða og fleiri aðila á landsbyggðinni. Hvaða hópur ungmenna sem er getur tekið þátt í þeim landshlutum þar sem verkefnið er í boði. Einu skilyrðin eru að a.m.k. einn fullorðinn einstaklingur (yfir tvítugu) leiði hópinn, að meðlimir hópsins séu nógu margir til að setja upp leiksýningu og séu á aldrinum 13-20 ára.
Hver hópur setur upp eitt af þremur leikverkum sem hafa verið skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik. Hóparnir frumsýna þegar þeim hentar í sinni heimabyggð en vorið 2017 eru haldnar veglegar lokahátíðir í hverjum landshluta þar sem hóparnir koma saman og sýna verk sín.

LEIKVERKIN
Þrjú glæný u.þ.b. 45 mínútna leikrit hafa verið skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik en þeir höfundar sem skrifa fyrir Þjóðleik að þessu sinni eru Auður Jónsdóttir, Snæbjörn Brynarsson og Ævar Þór Benediktsson. Hóparnir geta valið úr þessum þremur verkum til uppsetningar endurgjaldslaust.

NÁMSKEIÐ
Þjóðleikhúsið veitir listrænum stjórnendum Þjóðleiks-hópanna aðstoð í formi faglegrar ráðgjafar og námskeiða bæði í Reykjavík og í landshlutunum í vetur. Á undirbúningsnámskeiði fyrir leikstjóra hópanna 8.-9. október verða teknir fyrir þættir eins og sviðstækni ýmiss konar, leikstjórn og skipulag æfingaferlis. Þar kynna leikskáldin og hugmyndirnar að baki þeim. Í boði verða einnig námskeið í heimabyggð í janúar/febrúar þar sem áherslan er á leikmyndahönnun, lýsingu auk leikstjórnar.

SÝNINGAR
Hver hópur frumsýnir í sinni heimabyggð á þeim tíma sem honum hentar eftir áramótin. Lokahátíðir fara svo fram á tímabilinu mars-maí, en tímasetning er mismunandi eftir landshlutum.

KOSTNAÐUR
Ekkert kostar að taka þátt í Þjóðleik. Sýningarréttur á verkunum og námskeið fyrir stjórnendur og tæknifólk er allt endurgjaldslaust. Hóparnir þurfa hins vegar sjálfir að sjá um uppsetningarkostnað (ef einhver er) og ferðakostnað á námskeið og lokahátíð.

SKRÁNING OG UMSÓKNARFRESTUR
Umsóknarfrestur hópa er til 30. september 2016.
Skráning á Austurlandi fer fram með því að senda tölvupóst á netfangið slaturhusid@egilsstadir.is

Fylgstu með á Facebook:
https://www.facebook.com/Tjodleikur.leiklistarhatid