„Þið munið hann Jörund“ í Valaskjálf

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir á föstudag leikritið „Þið munið hann Jörund“ í leikstjórn Halldóru Malinar Pétursdóttur. Leikritið er eftir Jónas Árnason með fjöldanum öllum af söngvum sem hann samdi við skosk og írsk þjóðlög.
Leikritið var frumsýnt í Iðnó 1970 og naut gríðarlegra vinsælda og lögin úr leikritinu heyrast enn oft á öldum ljósvakans í flutningi tríósins Þrjú á palli sem var stór hluti í sýningunni í Iðnó. Í sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs verður það karlakór sem syngur lögin og hefur Freyja Kristjánsdóttir stjórnað honum en Hafþór Valur Guðjónsson sér um tónlistarstjórnina í sýningunni.

Sýningar verða í Valaskjálf en þar er nú sem óðast verið að gera allt upp. Öfrá sæti eru laus á frumsýninguna þann 14. nóvember kl. 20.00 og næstu þrjár sýningar verða sem hér segir.
Sunnudaginn 16. nóvember kl. 16.00
Miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20.00
Föstudaginn 21. nóvember kl. 20.00
Aðrar sýningar verða auglýstar seinna.

Frekari upplýsingar og miðapantanir eru í síma 867-1604 eða á tid.munid.hann.jorund@gmail.com og Facebooksíðu sýningarar má sjá hér

Myndin sem fylgir fréttinni er fengin frá Austurglugganum og sýnir tvo af leikurunum, Stefán Boga Sveinsson og Einar Rafn Haraldsson í hlutverkum sínum.