11.07.2008
kl. 20:00
Administrator
Sundlaugin á Egilsstöðum er vinsæl hjá ferðamönnum jafnt sem heimamönnum. Þar hefur aðsóknin verið frekar dræm það sem af er sumri en undanfarna daga hefur hún þó verið að aukast. Á laugardaginn var mjög fjölmennt enda veðrið gott.
Í gær kom hópur frá sumarbúðunum á Eiðum í sund, í allt 70 manna hópur og var, að sögn starfsmanna, mikið fjör hjá þeim. Töluvert er um að Fjarðabúar komi í sundlaugina, kvarta sáran undan því hve þokan hefur verið þrálát þar undanfarið og einnig eru gestir í sumarhúsum á svæðinu duglegir að nýta sér þjónustu sundlaugarinnar.
Á fimmtudögum koma ferðamennirnir úr Norrænu gjarnan við og fara í sund. Þeir verða oft undrandi yfir verðinu, enda aðgangur í sundlaugar víða í Evrópu mun dýrari en hér á Íslandi.
Aðstaða í sundlauginni er orðin mjög góð. Í vetur voru búningsklefar lagfærðir, settir upp læstir skápar og gólfefni og innréttingar endurnýjað. Við sundlaugina eru heitir pottar, barnalaug, rennibraut og auðvitað sólbekkir á bökkum laugarinnar.
Sundlaugin á Hallormsstað er einnig opin, en rekstur hennar er í höndum einkaaðila.