Sumarsýningar Sláturhússins opna 17. júní

Sumarsýningar Sláturhússins verða opnaðar 17. júní og standa út sumarið.
Sumarsýningar Sláturhússins verða opnaðar 17. júní og standa út sumarið.

Líkt og verið hefur undanfarin ár er Sumarsýning Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs 2019 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum tvískipt og opnar hún þann 17. júní.

Á efri hæði hússins er að finna myndlistarsýninguna ég er að deyja, einkasýningu eins af virtustu myndlistarmönnum á Íslandi samtímans Kristínar Gunnlaugsdóttur. Kristín sýnir verk sem öll eru saumuð með ull á grófan hampstriga og unnin á árunum 2014 - 2019, annars vegar veggteppi sem fjalla um fæðingar og hins vegar verk á ramma sem tengja saman fortíð og nútíð og vísa til þess sem má segja og ekki segja.

Í Frystiklefanum á neðri hæð er sett upp sýningin „því ég var eins eftir sem fyrr undir hans valdi“ og fjallar hún um ævi og örlög Sunnefu Jónsdóttur frá Geitavík og það viðamikla sakamál sem Sunnefa varð kveikjan að. Sýningin um Sunnefu er sögð í texta, teikningum og hljóðmynd sem og með notkun annarra miðla. Gestir geta kynnt sér sögu Sunnefu í nokkuð knappri frásögn sem er í senn spennusaga og getur skoðast sem 18. aldar innlegg í #metoo bylgjuna. Einnig er hægt að kafa dýpra og reyna að komast að niðurstöðu í þessu flókna og óleysta sakamáli sem spannar tæp 23 ár.

Báðar sýningarnar verða opnar út sumarið, þriðjudaga til laugardaga frá klukkan 11:00 til 17:00. Frekari upplýsingar má nálgast á slaturhusid.is.