Sumarsýning MMF 2017 í Sláturhúsinu

Sumarsýning Menningarmiðstöðvarinnar er meðal annars  tileinkuð 70 ára kaupstaðarafmælis Egilsstaðak…
Sumarsýning Menningarmiðstöðvarinnar er meðal annars tileinkuð 70 ára kaupstaðarafmælis Egilsstaðakauptúns.

Þessa dagana er mikið um að vera í Sláturhúsinu, menningarsetri á Egilsstöðum. 

Þar er unnið að uppsetningu á Sumarsýningu Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs 2017 sem nú samanstendur af þrem ólíkum sýningum á báðum hæðum hússins.

Opnun sýningarinnar verður að vanda þann 17. júní og hefst klukkan 15:30. Íbúar sveitafélagsins og aðrir gestir eru boðnir hjartanlega velkomnir. Sýningin mun standa yfir til 10. september og er opin þriðjudaga til laugardaga frá 11:00 – 16:00.

Sýningarnar þrjár sem opnaðar verða þann 17. júní næstkomandi eru:

Amma - Textílinnsetning Guðnýjar G. H. Marinósdóttur
Fædd í Sláturhúsinu – Alþjóðleg samsýning níu listamanna
Þorpið á Ásnum – Sýning í tilefni af 70 ára afmæli Egilsstaðahrepps


Amma
Guðný G. H. Marinósdóttir sýnir textílinnsetningu byggða á lífshlaupi föðurömmu hennar, Guðnýjar Einarsdóttur, sem var fædd í Reykjavík 1864 og lést á Seyðisfirði 1946.
Sýningin Amma er innsetning og samanstendur af nokkrum verkum;
Útlínur fjallsins Strandartinds, Seyðisfirði eru saumaðar yfir 4 renninga, sem hanga hlið við hlið, hver um sig 1 x 2.5 m. Í þá eru síðan saumuð nöfn afkomenda Guðnýjar Einarsdóttur ömmu höfundar. Einnig er á sýningunni refill 0.3 x 4 m með ljósmyndum úr lífi Guðnýjar.
Kommóða sem fylgdi henni allt frá unglingsárum skipar einnig sess á sýningunni, ásamt nokkrum fleiri munum. Bók um ævi Guðnýjar verður einnig til sölu á sýningunni.

Guðný Marinósdóttir er fædd á Seyðisfirði 1944, en flutti til Egilsstaða 1961. Hún lauk handmenntakennaraprófi frá Haandarbejdets Fremme í Kaupmannahöfn og síðar BA prófi frá Middlesex University í samvinnu við Julia Caprara School of Textile Arts í London.

Guðný bjó og starfaði við kennslu á Eiðum í 10 ár ásamt því að sinna listsköpun.
Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á Austurlandi og Akureyri þar sem hún hefur búið síðastliðin 20 ár.

Sýningin er styrkt af Fljótsdalshéraði.


Fædd í Sláturhúsinu
Á kjötkrókunum munu hanga skrokkar af ýmsum toga – göldróttir og kenjóttir, góðkynja og illkynja, sumir úr háloftunum, aðrir af jörðu niðri, enn aðrir úr iðrunum, sumir nýskriðnir á fætur, aðrir löngu lamaðir, einhverjir verkaðir til fulls fyrir löngu, aðrir mótaðir af staðnum og umhverfi hans, veðri og jarðvegi, orku og ólgu.
Gera má ráð fyrir gáskafullum snúði um ofbeldismennsku og eyðileggingarhvöt; fjöldaframleiddri skyndimynd úr fangaklefa bannfærðs manns úr fyrndinni; líkamlegu samspili og/eða átökum systranna mótstöðuleysis og stjórnar; stúdíu um hið flækjustigsháa samband einstaklings og samfélags; svipmynd af þrá hins fallna engils eftir ósjálfráðri fegurð og vængjum til að brúa gjár milli heima; og þeirri grunnþörf hins hlut- og óhlutbundna manns að segja bæði og heyra sögur – og þá helst góðar sögur. Einnig má vera að óvæntir og áður óþekktir gripir birtist og sameinist byggingunni, fylli upp í holur hennar og setjist að í skúmaskotum.

Sýningin samanstendur af verkum níu listamanna frá Íslandi, Þýskalandi, Sýrlandi og Madagaskar, sem vinna með margskonar miðla í sköpun sinni – svosem málverk, myndbönd, hljóð, gjörninga og skúlptúra. Verkin, sem annars standa á eigin fótum, tengjast fyrir tilstilli hugtaksins „grunnþarfir,“ sem varpað var fram til íhugunar við upphaf sköpunarferlisins og listamönnunum níu boðið að takast á við – eða afþakka – hver með sínu ólíka nefi.

Listamennirnir eru Alina Amer, Berglind Ágústdóttir, David Zehla, Freyja Eilíf, Katrína Mogensen, Snorri Páll, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Trixi Szabo og Una Sigtryggsdóttir.

Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Menningarsjóði Gunnarsstofnunar.


Þorpið á Ásnum
Um þessar mundir eru 70 ár síðan Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður með lögum frá Alþingi og þorp tók að myndast við Gálgaás. Af því tilefni hafa Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Minjasafn Austurlands tekið höndum saman og sett upp sýningu sem ber yfirskriftina Þorpið á Ásnum.

Á sýningunni eru til sýnis munir, ljósmyndir, skjöl, hljóð- og myndefni úr fórum safnanna tveggja sem allt tengist sögu Egilsstaða á einn eða annan hátt. Áhersla er lögð á að fjalla um upphafið, um frumbyggjana og frumkvöðlana, sýna hvernig byggðin hefur þróast og taka dæmi um það fjölbreytta mannlíf sem hefur blómstrað á Ásnum alla tíð. Vonir standa til að sýningin veki upp minningar hjá eldri kynslóðum og gefi um leið yngri kynslóðum tækifæri til að fræðast um þá sem á undan þeim gengu um götur þorpsins á Ásnum.

Hönnuður sýningar er Perla Sigurðardóttir.

Sýningin er styrkt af Fljótsdalshéraði.

Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður MMF í mmf@egilsstadir.is eða 897 9479.