Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum býður að venju upp á fjölbreytta dagskrá nú í sumar. Þjóðháttadagar eru fastir liðir á hverjum miðvikudegi í sumar en að auki stendur minjasafnið fyrir fleiri viðburðum, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra.
Mikið hefur verið um að vera á minjasafninu í júní. Á dagskrá þjóðháttadaganna hafa m.a. verið námskeið í ostagerð og fróðleikur um íslenska hundinn. Minjasafnið tók að venju virkan þátt í hátíðahöldunum á 17. júní. Þá var opnuð sumarsýning sem er sýning á kistum og kistlum í eigu safnsins. Nefnist hún Komdu og skoðað´í kistuna mína.
Á þjóðhátíðardaginn var einnig opnuð, á jarðhæð safnahússins, ljósmyndasýning sem nefnist Ókunn sjónarhorn. Hún er á vegum Ljósmyndasafns Austurlands en myndirnar á sýningunni eru fengnar frá Þjóðminjasafni Íslands. Um er að ræða óþekktar myndir frá árunum 1930 til 1950. Vel á þriðja hundrað manns sóttu safnahúsið á þjóðhátíðardaginn.
Síðastliðinn laugardag, 30. júní, voru saman komin vel á annað hundrað manns í safnahúsinu til að vera viðstödd afhjúpun á minningartöflu um hjónin Jón Þorsteinsson vefara og Þóreyju Jónsdóttur.
Framundan á minjasafninu í þessari viku er þjóðháttadagur, nú á miðvikudaginn, en þar verður lesið í íslenskan gróður. Næstkomandi sunnudag, 8. júlí, er svo íslenski safnadagurinn. Þá verður líf og fjör á safninu, m.a. haldið Fjórðungsmót í kleinubakstri og boðið upp á lifandi tónlist.
Dagskrá Minjasafns Austurlands í júlí og ágúst er annars eftirfarandi:
4. júlí: Þjóðháttadagur: Lesið í íslenskan gróður.
8. júlí: Íslenski safnadagurinn: Kleinukeppni og lifandi tónlist.
11. júlí: Þjóðháttadagur: Te og veigar úr íslenskum jurtum.
18. júlí: Þjóðháttadagur: Íslenskt fiskmeti uppá gamla mátann.
25. júlí: Þjóðháttadagur: Ostagerð.
1. ágúst: Þjóðháttadagur: Lifnaðarhættir íslenskra hreindýra.
8. ágúst: Þjóðháttadagur: Íslenskt fiskmeti upp á gamla mátann.
15. ágúst: Þjóðháttadagur: Ostagerð.
22. ágúst: Þjóðháttadagur: Sultugerð.
24. ágúst: Ormsteiti: Myndasýning í tilefni af 60 ára afmæli Egilsstaðabæjar.
29. ágúst: Þjóðháttadagur: Pönnukökurnar hennar ömmu.
Minjasafnið er opið alla daga kl. 11-17 nema miðvikudaga 11-19. Þjóðháttadagar eru á miðvikudögum milli kl. 17 og 19 og þá er ókeypis aðgangur að safninu.