Styttist óðum í Ormsteitið

Nú er aðeins vika þar til Ormsteitið verður sett á Vilhjálmsvelli með pompi og prakt. Dagskrá hátíðarinnar er komin í heild sinni inn á vefsíðuna ormsteiti.is og þá verður Ormsteitisblaði dreift í öll hús á Austurlandi í dag.

Hverfahöfðingjar hafa verið skipaðir í flestum hverfum og því er íbúum héraðsins óhætt að fara að pússa skótauið og dusta rykið af trommum og flautum hvers konar.

Dagskrá hátíðarinnar er óvenju glæsileg í ár í tilefni af 60 ára afmæli þéttbýlis við Lagarfljót. Má þar nefna tónleika í Hallormsstaðaskógi með hinni færeysku Eivöru Pálsdóttur ásamt fimm manna bandi, 100 manna tónleika Bogomils Font og Davíðs Þórs í Möðrudal á Fjöllum. Sú hefð hefur skapast að fyrri helgina er Ormsteitið sett með hverfaleikum á Vilhjálmsvelli en síðan eru aðalviðburðirnir í dreifbýlinu, þ.e. í Hallormsstaðaskógi og á fyrrum Norður–Héraði en minni áhersla er lögð á viðburði í þéttbýlinu.

Á Hallormsstaðadegi í ár er boðið upp á, auk tónleika Eivarar, í sveppaleiðangur, plöntugreiningu, fjársjóðsleit fyrir fjölskyldur og siglingu með Lagarfljótsorminum frá Atlavík. Þá er einnig boðið upp á þá nýbreytni að hægt er að panta nestiskörfur í Laufinu til að hafa með á tónleikana.

Á Norður-Héraðsdegi eru margir möguleikar, s.s. gönguferðir á selaslóðir, hreindýrasýning á Skjöldólfsstöðum, gallerí í Klausturseli, Möðrudalsgleði og svo framvegis.

Um miðja vikuna er svo lífgað uppá bæjarlífið með markaðsdögum Ormsteitis og eru íbúar hvattir til að gerast skransalar í einn dag eða svo eða mæta með uppskeruna á markaðinn.

Fimmtudagstónleikar Ormsteitis marka upphafið að seinni helginni sem er jafnan bæjarhátíð á Egilsstöðum og í Fellabæ. Að þessu sinni eru það Túbílakar frá Húsavík sem ætla að flytja Héraðsbúum og gestum þeirra frumsamin gleðilög. 

Laugardaginn 25. ágúst er svo hin eiginlega afmælisveisla en þá verður mikið um dýrðir í miðbæ Egilsstaða.  Tuttugu hafnfirskir víkingar munu heimsækja Héraðsbúa og sýna og selja handverk sitt ásamt því að sýna bardaga á tveggja tíma fresti. Tjaldið opnar kl. 11 með blómamarkaði Blómavals og fleiru. Klukkan14 (misritaðist í Ormsteitisblaði) hefjast útgáfutónleikar Dúkkulísa, nýjar stelpuhljómsveitir stíga á stokk sem og gestahljómsveitin Vichy Pollard. Afmælisterta verður á boðstólum, kaffilistaverk Bergs Thorbergs verða til sýnis og margt fleira. Hreindýraveislan hefst svo kl. 18 í Tjaldinu auk þess sem veitingahúsin bjóða upp á gómsæta og fjölbreytilega hreindýrarétti. Veislustjórar kvöldvökunnar eru þeir félagar Simmi og Jói en þeir munu beita sér fyrir ýmsu sprelli eins og þeim einum er lagið.  Kvöldinu lýkur svo með Nostalgíudansleik í Valaskjálf þar sem Rokkabillíband Reykjavíkur, Vax, Dúkkulísur og Austurlandið munu rokka þakið af húsinu.

Ormsteitinu verður slitið á Skriðuklaustri að lokinni glæsilegri dagskrá í Fljótsdalnum þar sem hápunkturinn eru tónleikar með Ljótu hálfvitunum í Bragganum á Skriðuklaustri.
 
Hægt er að skoða dagskrá Ormsteitis á www.ormsteiti.is eða með því að ýta á borðann Ormsteiti hér til hægri á forsíðu heimasíðu Fljótsdalshéraðs.