Styttist óðum í jasshátíðina

Nú styttist óðum í tuttugustu Jasshátíð Egilsstaða á Austurlandi.  En hátíðin mun fara fram dagana 27. – 30. júní.  Í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar verður dagsskrá hennar glæsilegri en nokkru sinni fyrr. 

Þá hefur formi hátíðarinnar verið breytt lítillega til að tryggja hana enn frekar í sessi sem elstu og skemmtilegustu jasshátíðar landsins.  Samkvæmt venju verða tónleikar frá miðvikudegi til laugardags á Egilsstöðum, í Neskaupstað og á Seyðisfirði og reynt að höfða til allra með frábærri tónlist. Nú þegar hafa borist um á annan tug umsókna frá hljóðfæraleikurum og söngvurum og er greinilegt að mikill áhugi er fyrir JEA. 

Þeir listamenn sem hafa staðfest komu sína er stuð og súpergrúppan Jagúar.  Þeir félagar eru að ljúka við uppökur á nýjum diski sem kemur út í júní.  Þá er einnig ánægjulegt að geta kynnt til leiks hin ótrúlega James Carter, en hann er einn magnaðasti saxófónleikari heimsins í dag.  James Carter hefur verið valin besti baritone-saxófónleikari heims 5 ár í röð af lesendum hins virta DownBeat tímarits og var einnig númer þrjú í vali á besta sópran-saxófónleikara í sama tímariti í fyrra. 

Einnig mun hin frábæra blúsdrottning Deitra Farr syngja á jasshátíðinni. En hún hefur áður komið fram á Jasshátíð Egilsstaða á Austurlandi en það var árið 1992 og muna margir eftir henni síðan þá. 

Með þeim Carter og Farr verður frábær bræðingur bestu tónlistarmanna landsins.  Þetta er hljómsveitin Riot en hana skipa snillingarnir Björn Thoroddsen, Halldór Bragason, Andrea Gylfa, Jón Ólafsson, Jón Rafnsson og Ásgeir Óskarsson. 

Narodna Musica er hljómsveit sem leikur búlgarska þjóðlagatónlist. Þessa sveit skipa búlgarskir og íslenskir tónlistarmenn með Hauk Gröndal í fararbroddi.  Hrafnaspark flytur tónlist í anda Django Reinhart.  Ásgeir Ásgeirsson gítaristi og hljómsveit hans flytja tónlist eftir Lester Young.  Dúettinn The Pich Fork Rebellion heiðrar minningu Ellu Fizgerald,
Söru Vaughan og Ninu Simone.  Tónlistarmenn af Austurlandi skipa einnig veglegan sess á hátíðinn eins og fyrri ár.   

Hátíðin mun fara fram með hefðbundnu sniði það er að bjóða uppá skemmtilega tónleika öll kvöldin en á laugardag verður blásið til afmælisveislu og landsmönnum öllum boðið til fagnaðarins.  Slegið verður upp tjaldi á góðum stað á Egilsstöðum þar sem  boðið verður uppá tónlist allan daginn. Það verður sannkölluð “carnival” stemning á Jasshátíð Egilssaða á Austurlandi dagana 27. – 30. júní.