Styttist í Ormsteitið

Ormsteiti, hin árlega Héraðshátíð nálgast óðum. Hún fer að þessu sinni fram dagana 10. til 14. ágúst. Hátíðin er með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur, m.a. vegna þess að hún stendur nú yfir í fimm daga en ekki tíu eins og áður. Hátíðin er fjölbreytileg eins og áður og án efa munu íbúar Héraðsins og gestir skemmta sér vel meðan á henni stendur.

 Ormsteitið verður sett formlega miðvikudaginn 10. ágúst klukkan 17:00 í markaðstjaldi sem opið verður alla hátíðina við Nettó. Um leið taka bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar á móti nýjum íbúum sem flutt hafa í sveitarfélagið frá síðasta Ormsteiti og veittar verða umhverfisviðurkenningar Fljótsdalshéraðs. Þá verður flutt tónlist og boðið upp á veitingar.

 Þennan sama dag, frá klukkan 18:00 til klukkan 21:00 gefst tækifæri til að kasta fyrir fisk í Eiðavatni. Veitt verður við Kirkjumiðstöðina og þar verður boðið upp á kakó og kleinur. Þeir sem hyggjast fara í veiðiferð eru beðnir að taka með sér stangir og veiðarfæri.

 

Fimmtudagurinn 11. ágúst hefst með púttmóti eldriborgara í Skjólgarðinum, á bak við pósthúsið. Eldriborgarar bjóða síðan upp á skemmtun og kaffi klukkan 16:00 að Hlymsdölum þar sem dagskráin verður helguð Kristjáni frá Djúpalæk.

 Síðar um daginn, eða klukkan 18:00, hefst ungmennahátíð við Sláturhúsið þar sem ungir listamenn koma fram. Skemmtileg leiktæki frá Hopp.is verða á staðnum en kvöldið endar svo með balli með Dj Dodda Mix og stendur það til kl 23:00. Ungmennahátíðin er fyrir 12 ára og eldri.

Um kvöldið bjóða Fellbæingar öllum heim upp á heimalagaða súpu frá klukkan 19:00 til klukkan 21:00.  Upplýsingar um hvar verður hægt að kíkja í heimsókn hjá Fellbæingum verður hægt að finna á www.facebook.com/ormsteiti . Gréta Dúkkulísa á Bókakaffi tekur síðan vel á móti gestum að lokinni súpuveislunni.  

Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að skreyta garða og götur fyrir klukkan 20:00 þennan dag þar sem dómnefnd fer á ról til að meta bestu skreytingarnar. Verðlaun verða síðan veitt á hverfaleikunum fyrir best skreytta húsið, best skreyttu götuna og best skreytta hverfið.

 

Föstudagurinn 12. ágúst er helgaður hverfagrilli, karnivali og hverfaleikum. Gert er ráð fyrir að hvert hverfi fyrir sig ákveði hvaða fyrirkomulag verður á hinu hefðbundna grilli sem gert er ráð fyrir að hefjist klukkan 17:00. Hvatt er til þess að fólk komi saman, ef veður leyfir, og kyndi þannig undir stemningunni, og kolunum að sjálfsögðu. Vænta má þess að hverfahöfðingjar viðkomandi hverfis sendi frá sér frekari tillögur um fyrirkomulagið.

Karnivalgangan í ár verður með öðru fyrirkomulagi en áður. Fellabær, appelsínugula hverfið, leiðir gönguna í ár, ásamt dreifbýlinu, græna og rauða hverfinu, og býðst þeim að grilla við Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum, en karnivalgangan hefst einmitt þar. Þar verður til taks grill, kol og bekkir, og því ekkert því til fyrirstöðu að láta fara vel um sig þar. Gangan hefst svo frá Íþróttamiðstöðinni klukkan 19:00 og verður gengið eftir Tjarnarbrautinni, þar sem íbúar annarra hverfa bætast hægt og rólega við. Frekari upplýsingar um fyrirkomulag þessarar skemmtilegu karnivalgöngu má finna á www.facebook.com/ormsteiti auk þess sem upplýsingum um karnivalið og hverfahátíðina er dreift í öll hús á Héraði.

Hverfaleikarnir hefjast síðan klukkan 19:30 á Vilhjálmsvelli, eftir að hverfin hafa öll marserað inn á svæðið og Héraðshöfðinginn hefur sett leikana. Fyrir utan spennandi keppni á milli hverfanna í furðuleikum, mun Sirkus Íslands sýna listir sína og Prins Póló flytja nokkur lög. Karamelluregnið verður á sínum stað og Danshljómsveit Friðjóns mun stýra brekkusöng.

Dj Doddi Mix mun síðan halda upp stuði á Kaffi Egilsstöðum frá klukkan 23:00.

 

Laugardagurinn 13. ágúst hefst með því að keppendur í Tour de Ormurinn verða ræstir af stað við N1 klukkan 9:00.  Hjólað er í kringum Lagarfljótið og eru tvær vegalengdir í boði, 103 og 68 kílómetrar.  Hvatt er til þess menn fjölmenni þegar keppendur fara af stað og koma aftur í markið við N1, en gert er ráð fyrir að þeir fyrstu komi í mark um klukkan 11:00. Frekari upplýsingar um keppnina er að finna á https://www.facebook.com/TourDeOrmurinn

Gistihúsið á Egilsstöðum býður gestum og gangandi að kíkja í kaffi til sín klukkan 10:00 en þar fer einnig fram verðlaunaafhending í Tour de Orminum seinnipartinn sama dag

Milli klukkan 10:00 og 12:00 býður sundlaugin á Egilsstöðum frítt í sund með tónlistarlegu ívafi.

Barna- og fjölskylduhátíð hefst á svæðinu innan við skattstofuna klukkan 13:00 og verður þar margt skemmtilegt um að vera. Hægt verður að sjá húsdýr og fara á hestbak. Sirkus Íslands býður upp á sirkusstöðvar fyrr krakka og Leikfélag Fljótsdalshéraðs verður með sprell.

Hin rómaða fegurðarsamkeppni gæludýra verður á sínum stað og geta gæludýr af öllum tegundum tekið þátt. Þeir sem vilja taka þátt í fegurðarsamkeppni gæludýra eru hvattir til að  skrá þátttöku á netfangið heidaosk2000@hotmail.com.

Söngvakeppni barna, TM söngvakeppnin, fer einnig fram og viðbúið að þar eigi fjölmörg hæfileikarík börn eftir að koma fram. Börn sem vilja taka þátt í TM söngvakeppninni  eru beðin að skrá þátttöku sína á netfangið moonvals@gmail.com. Æfing fyrir keppnina verður klukkan 10:00 sama dag í Sláturhúsinu.

Frítt verður í hoppukastala meðan á hátíðinni stendur og fimleikadeildin verður með candy floss og popp.

Kynnir á barna- og fjölskylduhátíðinni verður Magga Stína sem jafnfram mun syngja nokkur lög.

Bílaklúbburinn Start verður síðan með glæsilega tækjasýningu á gamla tjaldsvæðinu innan við Landstólpa milli klukkan 11:00 og 16:00 og þar verður tekið vel á móti gestum. Að lokinni sýningu tekur hersingin rúnt um Egilsstaði.

Klukkan 18:00 hefjast stórtónleikar í Kornskálanum, en einnig verður hægt að hlusta á tónlistina á svæðinu við Sláturhúsið og hafa það notalegt þar. Á svæðinu verður hægt að kaupa sér hreindýra sushi, hreindýrapizzu og fleira gómsætt.

Andri Freyr, útvarpsmaður, verður kynnir á tónleikunum en þar koma fram stúlknabandið Ragnhildur, Soffía og Karen; Sveitabandið; Aldís Fjóla, Nanna og Frikki; Magga Stína sem syngur Megasarlög; Máni & The Road Killers; Helgi Björnsson og hljómsveit og loks Danshljómsveit Friðjóns sem heldur uppi stuðinu fram eftir kvöldinu.

Klukkan 23:30 hefst hinn rómaði Nostalgíudansleikur í Valaskjálf þar sem Helgi Björnsson og hljómssveit leika fyrir dansi.

 

Sunnudagurinn 14. ágúst er hinn skemmtilegi Fljótsdalsdagur. Dagskráin þennan dag fer fram í Fljótsdalnum en einnig í Vallanesi.

Fjölskylduganga á Snæfellið hefst klukkan 10:00 frá Snæfellsskála. Brottför er frá N1 á Egilsstöðum klukkan 8:00 með brottför. Fossaganga verður einnig í boði frá Laugarfelli klukkan 9.45 og er frítt í laugarnar þar fyrir göngufólk.

Skoðunarferðir í Fljótsdalsstöð hjá Landsvirkjun er í boði á 20 mínútna fresti milli klukkan 10:00 og 12:00.

Guðsþjónusta hefst klukkan 11:00 á klausturrústunum á Skriðuklaustri.

Klukkan 11:00 er Sudoku í boði í Snæfellsstofu og milli klukkan 11:00 og 14:00 verður Óbyggðasetrið með tilboð á súpu og sýningu. Bæði Klausturkaffi og Laugarfell verða með tilboð á hádegismatseðli.

Þristarleikarnir skemmtilegu hefjast klukkan 13:00 á Skriðuklaustri og þá verður Júlíus Meyvant með tónleika á sama stað.

Á milli klukkan 13:00 og 17:00 verður heilmikið um að vera á Vallanesi. Að venju verður boðið upp á hljóðfæraleik, varðeld, veitingar og óvæntar uppákomur og núna hefur Ormurinn verið lengdur og nær alla leið heim í Vallanes - og til baka. Markaður verður opinn heima í Vallanesi með nýuppskornu grænmeti og framleiðsluvörum Móður Jarðar. Að auki verður Asparhúsið - verslun og veitingastaður, fyrsta hús á Íslandi byggt alfarið úr íslenskum viði, opnað formlega.

Þá er vert að geta þess að dagana 10. til 13. ágúst verður í Sláturhúsinu hægt að sjá sýningu Rúnu Aspar Unnsteinsdóttur í samstarfi við Arfleifð – „Doktor Downs”. Í Sláturhúsinu er einnig hægt að sjá þrjár aðrar sýningar, sem er sýning á verkum Jóns frá Möðrudal, sýning á myndlist í eigu Fljótsdalshéraðs og myndlistarsýning félaga í Myndlistarfélagi Fljótsdalshéraðs. Sláturhúsið menningarsetur er opið milli klukkan 13:00 og 17:00.

 

Framkvæmdastjóri Ormsteitis er Vala Gestsdóttir og upplýsingar um Ormsteitið er að sjálfsögðu að finna á  https://www.facebook.com/ormsteiti