Strandblakvöllur settur upp á Egilsstöðum

Blakdeild Hattar hefur staðið í stórræðum undanfarið því í Bjarnadalnum á Egilsstöðum er langt komin vinna við að útbúa strandblakvöll. Bjarnadalur er í lautinni milli Bláskóga og Dynskóga. Fyrstu hugmyndir um strandblakvöll á þessum stað vöknuðu hjá áhugasömum blakkonum í blakdeildinni fyrir nokkrum árum síðan. Blakdeildin fékk svo nýlega veglega aðstoð frá Alcoa til að setja upp blakvöllinn. Fyrirtækið lagði til 250 þúsund króna styrk, auk vaskra sjálfboðaliða á vegum samfélagsverkefna fyrirtækisins. Völlurinn mun komast í gagnið næsta vor.
 
Á laugardaginn var sannkallaður vinnudagur við strandblakvöllinn því mættir voru 55 sjálfboðaliðar af öllum stærðum og gerðum til stórra verka. Í upphafi fengu allir bol að gjöf og var svo hafist hand við að þökuleggja, dreifa sandi, raka og slértta. Vel gekk hjá samstilltum hópi og var unnið þar til fyrirfram ákveðnum verkhluta var lokið. Alcoa bauð loks öllum í pizzahlaðborð og tóku sjálfboðaliðarnir hraustlega til matar síns. Blakdeildin vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum.
 
Fljótsdalshérað styrkir einnig verkefnið og hefur ánafnað fé til blakvallarins. Nú bíða blakáhugamenn vorsins til að geta reynt með sér á hinum nýja strandblakvelli, sem er þó fjarri ströndum.