Strætóferðir milli Akureyrar og Egilsstaða

Strætó hefur áætlunarferðir á Norður- og Norðausturlandi frá og með 2. janúar 2013. Hægt verður að fara frá Egilsstöðum sex daga vikunnar klukkan 7.10 og tilbaka frá Akureyri klukkan 15.30. Þetta er ein af þremur nýjum leiðum Strætó, hinar tvær eru, Akureyri - Siglufjörður og Akureyri - Þórshöfn í gegnum Húsavík en legginn frá Húsavík þarf að panta sérstaklega með 4 tíma fyrirvara.

Bæklingur með upplýsingum um ferðirnar var borin í öll hús á Egilsstöðum fyrir jól. Þar kemur fram að fargjaldið miðast við fjölda gjaldsvæða. Á vef Strætó, www.straeto.is er hægt er að kynna sér tímaáætlanir og hve mörg gjaldsvæði liggja á milli þeirra. Þar er einnig að finna reiknivél til að reikna út verð á milli staða.

Hægt er að kaupa farmiða á straeto.is, á völdum stöðum í þéttbýli á svæðinu en einnig er hægt að greiða farmiðann með debet- og kredikortum.

Staðgreiðsluverð fyrir gjaldsvæði er 350 krónur. Ef greitt er með miðum þarf að nota jafn marga miða og fjöldi gjaldsvæða segir til um. 15 gjaldsvæði eru á milli Akureyrar og Egilsstaða. Ef greitt er með farmiðum þarf að nota 15 farmiða og þá kostar ferðin 5.000 kr. fyrir fullorðna, 1.875 kr. fyrir ungmenni, 825 kr. fyrir börn og 1.725 kr. fyrir öryrkja og aldraða.

Á vef Strætó kemur fram að hægt á að fara á milli Reykjavíkur og Egilsstaða á einum degi eða 10 tímum. Til dæmis þá er áætlað að leið 57 leggi upp frá Mjóddinni klukkan 8.58 þann 22. janúar og komi til Akureyrar klukkan 15.12. þá þarf að skipta um vagn og leið 56 fer frá Akureyri klukkan 15.30 og kemur til Egilsstaða klukkan 19.

Í upphafi verður akstri um Norður- og Norðausturland sinnt með langferðabílum frá Hópferðabílum Akureyrar og verður þráðlaust net um borð í öllum vögnum.