Strætisvagnar Austurlands formlega af stað

Strætisvagnar Austurlands (SVAust) hófu formlega göngu sína miðvikudaginn 5. júní.

Með SVAust var brotið blað í almenningssamgöngum hér á landi, en Strætisvagnar Austurlands eru fyrsta heildstæða almenningssamgöngukerfið sem þjónar heilum landsfjórðungi.

Nýtt merki
Í desember á síðasta ári efndi framkvæmdastjórn SSA til hugmyndasamkeppni um nafn og merki fyrir nýja almenningssamgöngukerfið sem var þá í burðarliðunum.  Hlutskörpust varð Alma J. Árnadóttir, en alls bárust átta tillögur. Í rökstuðningi dómnefndar kemur m.a. fram að vinningstillaga Ölmu sameini þá kosti að vera einföld, skýr og alþjóðleg. Þá haldi nafnið í þá nafnahefð sem fyrir sé á helstu stöðum á landinu, þar sem þjónusta almenningssamganga er veitt, s.s. Strætó bs. og SVA.

Dómnefndina skipuðu Þór Vigfússon, myndlistarmaður, Ingunn Þráinsdóttir, grafískur hönnuður og anna Katrín Svavarsdóttir, umhverfisskipulagsfræðingur.

Ný gjaldskrá
Með SVAust tekur gildi gjaldskrá sem byggir á gjaldsvæðum. Hvert gjaldsvæði spannar 15 km og tekur almennt fargjald mið af þeim fjölda gjaldssvæða sem ferðast er um.

Lífeyrisþegar, hreyfihamlaðir og örykjar greiða þó aðeins fyrir eitt gjaldsvæði óháð vegalengd og framhaldsskólanemar njóta einnig þeirra fríðanda með framhaldsskólakorti SVAust. Börn búsett í Fjarðabyggð á grunnskólaaldri fá frítt í strætó, þar sem sveitarfélagið niðurgreiðir þær ferðir með grunnskólakorti og sérstakur gjaldflokkur fyrir stórnotendur veitir fyrirtækjum og stofnunum afsláttarkjör vegna ferða starfsfólks til vinnu og frá. Þá veita almenn mánaðarkort ótakmarkaðan aðgang að samgöngukerfinu án tillits til vegalengdar og með stigvaxandi afslætti frá almennu fargjaldi allt eftir því hvort kort er til eins, þriggja, sex, níu eða tólf mánaða.

Forsagan
Leiðarkerfi SVAust hefur verið rekið í hálft annað ár sem þróunarverkefnið Skipulagðar almenningssamgöngur á Austurlandi. Því var upphaflega hrundið af stað af Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og Austurbrú á grundvelli samnings Vegagerðar ríkisins og landshlutasamtaka sveitarfélaga um sérleyfisakstur.

 Rekstur leiðakerfisins byggir á þremur stoðum. Við þá grunnþjónustu sem áður byggðist á sérleyfissamningum á milli Vegagerðarinnar og sérleyfishafa bætist annars vegar sá aksturs sem var á vegum einstakra sveitarfélaga  og hins vegar starfsmannaakstur Alcoa Fjarðaáls. Fjarðabyggð, Seyðisfjörður og Djúpivogur hafa haft milligöngu fyrir hönd þeirra átta sveitarfélag sem eru á Austurlandi um samningagerð við  viðkomandi akstursaðila, ásamt þeim sérsamningi sem gerður hefur verið vegna aksturs til Borgafjarðar.

Markmið sveitarfélaganna á Austurlandi er að heildstætt kerfi í almenningssamgöngum gegni því tvíþætta hlutverki að tengja byggðir landshlutans saman og veita íbúum og ferðamönnum raunhæfan valkost í ferðum jafnt innan fjórðungsins sem til hans og frá.

Tímatöflur ásamt gjaldskrá verða aðgengilegar á heimasíðum sveitafélaganna ásamt upplýsingasíðunniwww.east.isþar sem einnig verður hægt að kaupa miða. Almenn miðasala fer fram hjá akstursaðilum þar sem við á, bæjarskrifstofum, íþróttamiðstöðvum og Egilsstaðaflugvelli.

Austurbrú er þjónustustofnun á Austurlandi sem sinnir margvíslegum verkefnum m.a byggðaþróunarverkefnum sem þessum.

Nánari upplýsingar veitir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, fulltrúi nýsköpunar og þróunar hjá Austurbrú, síma 861 7595, netfang asta@austurbru.is.

Gjaldskrána má sjá hér og tímatöfluna hér.