Stórafmæli í Fellasveit

Nú á árinu hafa fjögur félög og stofnanir í Fellum átt stórafmæli. Skal nú aðeins gerð grein fyrir þessum tímamótum. Elst af afmælisbörnunum er kvenfélagið Dagsbrún. Í ár var öld liðin frá stofnun þess. Félagið var stofnað á Birnufelli sunnudaginn 28. júlí 1912. Alls voru þá 23 konur skráðar í félagið og greiddu þær eina krónu fyrir félagsaðild. Jarðþrúður Einarsdóttir var fyrsti formaður og með henni í fyrstu stjórn voru þær Guðrún Jónsdóttir ritari og Dagný Pálsdóttir fjéhirðir. Allar fermdar konur, giftar eða ógiftar gátu gengið í félagið segir í fyrstu fundargerð. Félagið hefur legið í dvala síðustu árin en er þó ekki formlega aflagt.

Ungmennafélagið Huginn í Fellum varð 80 ára í ár. Það var stofnað 16. október 1932. Stofnfundur var haldinn á Ormarsstöðum í Fellum og voru 29 stofnfélagar. Í fyrstu fundargerð félagsins kemur fram að eitt af markmiðunum sé að vekja og glæða þjóðlegar hugsjónir innan félagsins og utan. Helsta verkefni félagsins fyrstu árin var að koma upp samkomuhúsi fyrir Fellamenn. Það tókst og reis hús á Rauðalæk sem tekið var í notkun árið 1934.

Í gegnum árin var hefðbundin starfsemi líkt og í öðrum ungmennafélögum í sveitum landsins. Skák var töluvert iðkuð á tímabili og á síðasta áratug síðustu aldar var knattspyrnufélag með mestum blóma. Í liðinu voru alla tíð að mestu innfæddir Fellamenn og fóru víða um Austurland í keppni í opinberum mótum. Heldur hefur stafsemi félagins verið lítil síðustu ár en félagið lifir enn og stendur fyrir ákveðinni starfsemi. Haldið var upp á afmæli félagsins í haust í samvinnu við annað afmælisbarn, Fellaskóla, með skákkvöldi og borðtennismóti.

Kirkjukór Ássóknar varð 55 ára fyrr á árinu. Kórinn var stofnaður í Áskirkju þann 23. ágúst 1957. Þangað var mætt allt þáverandi söngfólk sveitarinnar ásamt Eyþóri Stefánssyni söngkennara á Sauðárkróki sem leiðbeindi um stofnun kórsins. Fyrsti stjórnandi kórsins var Sæbjörn Jónsson á Skeggjastöðum og forsöngvari Þorbergur Jónsson bróðir hans. Fyrstu stjórn kórsins skipuðu Þorbergur Jónsson, formaður. Páll Jónsson, gjaldkeri og Víkingur Gíslason, ritari. Meðstjórnendur voru þau Þórunn Sigurðardóttir og Grétar Brynjólfsson. Kórinn hefur starfað alla tíð síðan og syngur við allar kirkjulegar athafnir í Fellum. Þann 18. nóvember hélt kórinn afmælistónleika í Fellabæ sem sómi var að.

Í ár voru svo 25 ár liðin frá því Fellaskóli tók til starfa. Fyrst var skólinn rekinn sem skólasel frá Egilsstaðaskóla en síðar varð skólinn sjálfstæður og er enn. Á haustdögum var haldið upp á afmæli skólans með prýðilegri dagská.

Sigfús Guttormsson