Stofnfundur Hinsegin Austurlands

Stofnfundur félagsins Hinsegin Austurlands var haldinn þann 28. desember 2019 en tilgangur félagsins er, samkvæmt samþykktum þess, að vera stuðnings- og fræðslusamtök fyrir hinsegin fólk á Austurlandi, þar á meðal samkynhneigða, tvíkynhneigða, transfólk, intersex og annarra sem skilgreina sig hinsegin, auk aðstandenda þeirra og velunnara.

Fundurinn var haldinn í Valaskjálf á Egilsstöðum og voru fundastjóri og fundaritari séra Sigríður Rún Tryggvadóttir og Stefán Bogi Sveinsson.

Á fundinum fór Jódís Skúladóttir yfir tilurð félagsins og undirbúning, en í undirbúningsstjórn voru, ásamt Jódísi, þau Þórhallur Jóhannsson og Marteinn Lundi Kjartansson. Marteinn er nemandi í Menntaskólanum á Egilsstöðum og formaður Kindsegin, hinseginfélags ME.
Var farið yfir samþykktir nýstofnaðs félags, kosið var í stjórn félagsins og góðir gestir komu í pontu og fluttu ávörp. Sveif yfirþyrmandi þakklæti og gleði yfir vötnum og fólk almennt sammála um það að stofnun Hinsegin Austurlands væri ákaflega tímabært og gott skref fyrir Austurland allt.

Á fundinum var tekin ákvörðun um að hafa opið fyrir skráningu stofnfélaga í Hinsegin Austurlandi til 10. janúar 2020, en eftir það er að sjálfsögðu áfram hægt að skrá sig í félagið. Félagsgjöld verða 3.000 krónur á ári, innheimt 1. september ár hvert.

Hægt er að skrá sig í félagið með því að senda tölvupóst á netfangið hinseginausturland@gmail.com og gefa upp nafn, kennitölu og símanúmer.