Stígagerð og kurlað í Selskógi

Í sumar hefur mikið verið unnið að grisjun Selskógar, eins og þeir sem um hann fara hafa eflaust tekið eftir. Undanfarna daga hefur  Sveinn Ingimarsson ásamt fleirum kurlað það timbur sem til féll við grisjun Selskógar síðastliðin tvö sumur. Nota á kurlið í stíga í skóginum, m.a. nýjan stíg, sem liggur frá bílastæðinu við Selbrekku og niður í Vémörk. Þessi nýi stígur styttir leið íbúa í Selbrekkunni, og annarra sem nýta sér aðkomuna við Selbrekku, niður í Vémörk umtalsvert (úr a.m.k. 800m í um 300m). Mikið magn af kurli er nú til staðar svo hægt verður að bæta kurli í flest alla stíga skógarins og laga þannig aðgengi íbúa og ferðamanna að skóginum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér og nýta þær bætur sem eru að verða á stígunum í Selskógi.