Starfsári grunnskólanna að ljúka

Skólaslitum er nú lokið í öllum skólum sveitarfélagsins og nemendur hafa tekið til við leik eða störf á öðrum vettvangi þar til skólarnir kalla aftur í lok sumars.

Flestir geta unað sáttir við hvernig til tókst í vetur, en að venju fengu nemendur afhent mat og umsagnir um störf sín á skólaárinu við lok skólaársins. Þeir nemendur sem nú ljúka grunnskólagöngu sinni gengust undir samræmd próf og var niðurstaða þeirra almennt góð, þó einhverjir telji sig vafalaust hafa getað gert enn betur. Sveitarfélagið óskar þeim til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar á áframhaldandi braut í námi eða starfi.

En fleira ber skólastarfi vitni en einkunnir í bóklegum fögum. Ýmis þróunarverkefni, formleg og óformleg hafa verið unnin í skólum sveitarfélagsins í vetur og bera þau vott um frjótt og lifandi skólastarf. Auk þess ber sérstaklega að nefna að fyrir nokkru síðan hélt Hallormsstaðaskóli veglega sýningu á verkum nemenda í vetur og þar sýndi sig berlega hversu marga listamenn við eigum í skólunum okkar og hversu afkastamiklir þeir eru. Fjölbreytnin var ótrúleg og verk nemenda með eindæmum glæsileg og skemmtileg.