Spurningakeppni grunnskóla framundan

Dagur íslenskrar tungu er þann 16. þessa mánaðar. Í tilefni af honum verður haldin spurningakeppni milli grunnskóla á Austurlandi. Nemendur í tíunda bekk keppa og verða sex lið frá þremur skólum. Grunnskólinn á Egilsstöðum og Eiðum sendir þrjú lið til keppni en hinir grunnskólarnir eru frá Djúpavogi, Fáskrúðsfirði og Vopnafirði.

Keppnin er haldin í anda þáttar á Rás 1 í RÚV, sem nefnist „Orð skulu standa“ en stjórnandi þess þáttar er Karl Th. Birgisson fyrrum ritstjóri vikublaðsins Austurlands. Hann stýrir keppninni en dómari er Fljótsdælingurinn Gunnar Gunnarsson blaðamaður Austurgluggans. En umsjón með keppninni hefur Menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps.
Forkeppni verður í félagsheimilinu Skrúði á Fáskrúðsfirði mánudaginn 13. nóvember og hefst kl 14:00. Undanúrslit verða í Egilsstaðaskóla 14. nóvember kl 14:00 og úrslitakeppnin verður svo í Miklagarði á Vopnafirði klukkan 17:05 fimmtudaginn 16 nóvember. Rétt er að taka fram að Miklagarði verður lokað klukkan 16:50 vegna þess að sent verður beint út frá keppninni í svæðisútsendingu Ríkisútvarpsins á Austurlandi.