- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Námskeið í „Haraldinum“, á vegum Improv Ísland, verður haldið í Sláturhúsinu, menningarsetri á Egilsstöðum 11. til 13. mars.
Á námskeiðum Improv Ísland kynnast þátttakendur grunninum í langspunaforminu Haraldinum, sem er ein þeirra aðferða sem spunaleikhópurinn vinnur eftir. Aðferðin er þjálfun í skapandi hugsun og eykur um leið hæfni í húmor og því að sleppa sér áhyggjulaust í gleði og gríni. Í lok námskeiðs ættu þátttakendur að ná að búa til um 20 mínútna gamansýningu á staðnum, útfrá aðeins einu orði. Námskeiðið sem haldið verður í Sláturhúsinu er annars vegar fyrir 16 ára og eldri og hins vegar fyrir einstaklinga í 8. – 10. bekk.
Námskeið I er fyrir alla 16 ára og eldri:
Föstudag 18:00 til 21:00
Laugardag 16:00 til 19:00
Sunnudag 16:00 til 19:00
Verð:15.000kr
Námskeið II er sérstaklega hugsað fyrir 8-10 bekk:
Laugardag: 13:00 til 15:00
Sunnudag: 13:00 til 15:00
Verð: 8000 kr.
Áralöng hefð er fyrir spunaleiksýningum í Bandaríkjunum og margir af stærstu grínleikurum síðustu ára þar í landi koma oft úr langspunaþjálfun, frekar en úr hefðbundnara leiklistarnámi. Má þeirra á meðal nefna leikara eins og Bill Murray, Tina Fey, Will Ferrell, Mike Meyers, Amy Poehler, Steve Carell og fleiri. Handritshöfundateymi nota einnig aðferðina mikið til að fá innblástur og efnivið í senur í sjónvarpsþáttaseríur og kvikmyndir.
Aðferðin hefur einnig verið að ryðja sér rúms í Evrópu undanfarin ár. Spunaleikhópurinn Improv Ísland var stofnaður fyrir um tveimur árum og nú þegar er farinn að njóta mikilla vinsælda. Hópurinn hefur staðið reglulega fyrir námskeiðum í langspuna og hefur yfirleitt verið uppselt á námskeiðin á innan við sólarhring. Alls hafa um 300 manns sótt námskeið á vegum Improv Ísland en auk þess stendur hópurinn fyrir vikulegum sýningum í Þjóðleikhúskjallaranum. Hver sýning er spunnin á staðnum út frá einu orði frá áhorfendum. Ekkert er ákveðið fyrirfram, ekkert handrit er að sýningunum og er því hver sýning frumsýning og lokasýning.
Kennari er Adda Rut frá Improv Ísland.
Skráning og nánari upplýsingar eru á improvharaldurinn@gmail.com . Senda þarf fullt nafn, símanúmer og kennitölu þátttakenda og kennitölu greiðanda.