Sorpmálin áfram til umfjöllunar

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs í síðustu viku var tekið fyrir bréf frá Umhverfisráðuneytinu, þar sem ráðuneytið samþykkir tímabundna undanþágu til áframhaldandi urðurnar sorps frá Fljótsdalshéraði á urðurnarsvæði Breiðdalshrepps á Heydalamelum. Heimildin gildir til 15. júlí 2012 og miðast við ákveðið magn og er bundin skilyrðum í starfsleyfi Breiðdalshrepps.

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs var bókað að ráðið fagnaði því að hafa fengið undanþágu til urðunar á sorpi á sorpförgunarsvæði Breiðdalshrepps til tveggja ára, sem skapar svigrúm til að leita framtíðarlausnar. Bæjarráð tekur tekur jafnframt undir það sem fram kemur í bréfi umhverfisráðuneytisins, að rétt sé að leita sameiginlegra lausna fyrir Mið-Austurland í heild og mun áfram leita eftir viðræðum við önnur sveitarfélög á svæðinu um málið.