- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Hin árlega Sólstöðuganga Ferðafélags Fljótsdalshéraðs verður farin í Stapavík föstudaginn 21. júní, klukkan 20:00. Mæting er við hús Ferðafélagsins að Tjarnarási 8 á Egilsstöðum. Þaðan er ekið að Unaósi. Gengið er frá bílastæði og út með Selfljóti.
Í fyrra var göngustígurinn frá Unaósi út í Stapavík lagfærður. Hann var malarborinn á ákveðnum stöðum, lækir voru brúaðir auk þess sem bílastæðið við upphaf gönguleiðar var fært og stækkað. Þá var útsýnispalli komið fyrir við gömlu hafnarmannvirkin í Stapavík. Í þessari viku var leiðin stikuð og fjögur upplýsingaskilti voru sett upp, þ.e. á bílastæðinu þar sem eru upplýsingar um svæðið og leiðina, við Krosshöfða, Eiðaver og loks við Stapavíkina sjálfa. Það var Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem styrkti framkvæmdirnar.
Fararstjóri í Sólstöðugöngunni verður Stefán Kristmannsson. Nánar um viðburðinn má finna hér .