Sól og blíða á Samfélagsdaginn

Fjölmörg félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar, ásamt sveitarfélaginu, hafa ákveðið að taka þátt í Samfélagdeginum sem haldinn verður 26. maí. Verkefnin sem nú hafa verið skráð og verða framkvæmd á Samfélagsdaginn eru um 30 talsins. Í sumum tilfellum eru verkefnin unnin undir forystu félagasamtaka og fyrirtækja og með því að einstaklingar frá þeim leggja til vinnuframlag. Í öðrum tilvikum styðja aðilar við verkefnin með því að leggja þeim til ýmsar vörur, s.s. mold, þökur, flutning og vélavinnu, eða gefa verulegan afslátt á verði þeirra.

Hægt er að fara inn á vefsíðu Samfélagsdagsins www.fljotsdalsherad.is/samfelagsdagur og sjá þar lýsingu á öllum verkefnunum og hverjir koma að þeim og styðja þau með einhverjum hætti. Þarna geta menn einnig skráð sig til þátttöku í verkefnum auk þess sem það má gera með því að hringja í starfsmann Samfélagsdagsins í síma 898 7432.

Vinna við einstök verkefni hefst kl. 10.00 laugardaginn 26. maí og er gert ráð fyrir að þau séu það viðráðanleg að hvert verkefni taki um 1-3 tíma í framkvæmd.

Grillveislur verða fyrir þátttakendur á eftirfarandi stöðum og hefjast þær um kl. 13.30: Á Vilhjálmsvelli, við Hlymsdali, við Tungubúð og við Hjaltalund.

Samfélagsdagurinn er samstarfsverkefni Fljótsdalshéraðs, Fjarðabyggðar, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Alcoa.