- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Vaxandi áhugi er á skíðagöngu á Fljótsdalshéraði. Milli jóla og nýárs lögðu Snæhérar skíðaspor í Selskógi og áttu í framhaldinu margir leið sína þangað til þess að njóta útivistar og hreyfingar. Snæhérar eru félagsskapur áhugafólks um skíðagöngu á Fljótsdalshéraði og hefur hluti þessa hóps tekið þátt í hinni sívinsælu Vasa skíðagöngu sem fram fer í sænsku Dölunum ár hvert. Í vetur er stefnt að því að leggja gönguskíðaspor daglega þegar aðstæður leyfa, annað hvort í Selskógi eða við skíðaskála Snæhéra á Fjarðarheiði.
Snæhérar hvetja alla sem áhuga hafa á skíðagöngu að nýta sér sporið og er fyrirhugað að auglýsa á heimasíðu Fljótsdalshéraðs jafnóðum og göngubraut hefur verið lögð, undir viðburðardagatali sem er til hægri á forsíðunni.