Í dag, fimmtudaginn 24. júní, kl. 15.00, verður Snæfellsstofa opnuð við hátíðlega athöfn. Snæfellsstofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Hún er fyrsta vistvænt vottaða bygging landsins samkvæmt breska umhverfisstaðlinum BREEAM. Í Snæfellsstofu er sérlega áhugaverð og falleg sýning, Veraldarhjólið, sem fjallar um hringrás og mótun náttúrunnar. Sýningin leggur áherslu á samspil gróðurfars og dýralífs á austursvæði þjóðgarðsins. Við hönnun hennar var lögð áhersla á að börn gætu snert, lyktað og prófað sig á ýmsum sýningarmunum. Minjagripaverslun er í gestastofunni með áherslu á vörur úr heimabyggð og nágrannasveitum þjóðgarðsins.
Gestastofan er staðsett á Skriðuklaustri rétt sunnan við afleggjarann upp á Snæfellsöræfi og er hún opin í sumar alla daga á milli 9:00 - 19:00.