Sláturhúsið fær heimasíðu

Tekin hefur verið í notkun heimasíða fyrir Sláturhúsið á Egilsstöðum, en vefslóðin er www.slaturhusid.is. Í Sláturhúsinu eru vinnustofur, sýningar- og tónleikasalir, hljóðstudíó, Veghúsið ungmennahús, listamannaíbúð o.fl. Þar er einnig Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs til húsa. Sláturhúsið er til afnota fyrir íbúa sveitarfélagsins sem og alla þá sem vilja taka þátt í alhliða listsköpun og njóta lista á sem flestum sviðum.

Sláturhúsið við Kaupvang er eitt af elstu húsum Egilsstaða og hefur tengst atvinnusögu bæjarins í langan tíma. Stórgripaslátrun var þar hætt árið 2003 en fyrsti menningarviðburðurinn fór fram í húsinu 2007. Það hafði þá verið tekið töluvert í gegn, fengið breytt hlutverk og orðið menningarsetur.

Á heimasíðu Sláturhússins má m.a. fá upplýsingar um Vegahúsið, menningarmiðstöðina og sögu hússins sem sláturhúss auk þess sem þar er að finna fjölmargar myndir. Næstu viðburðir í Sláturhúsinu er loks kynntir til sögunnar.