Skýrsla komin út um hagi og líðan ungs fólks

Í lok árs 2010 komu niðurstöður rannsóknar um hagi og líðan ungs fólks í 8. - 10. bekk á Fljótsdalshéraði, sem lögð var fyrir fyrr á því ári. Niðurstöður rannsóknarinnar eru á margan hátt jákvæðar, þannig hefur dregið mjög úr tóbaksneyslu ungmenna á milli áranna 2009 og 2010, einkum munn- og neftóbaksneyslu, en einnig reykingum. Áfengisneysla hefur jafnframt dregist mikið saman á milli ára, en vegna fæðar í árgöngum geta sveiflur á milli ára mælst talsverðar eins og víða má sjá í niðurstöðum. Umtalsverður árangur hefur náðst í að stemma stigu við drykkju grunnskólanema á framhaldsskóladansleikjum, en 9% 10. bekkinga sögðust þó hafa neytt áfengis á framhaldsskóladansleik á móti 19% árið áður. Neysla annarra vímuefna er einnig minnkandi og almennt í samræmi við eða undir landsmeðaltali, þó kallar það á athygli að 6% 10.bekkinga segjast hafa neytt sveppa sem vímuefna 1 sinni eða oftar um ævina á móti 3% á landsvísu.

Samvera foreldra og ungmenna á Fljótsdalshéraði hefur almennt aukist umtalsvert á milli ára og útivistarreglur eru eftirtektarvert betur virtar en áður. Í inngangi að skýrslunni þar sem niðurstöður eru kynntar kemur fram hversu mikilvæg samskipti foreldra og ungmenna eru, en þar segir:
„Undanfarin ár og áratugi hafa niðurstöður rannsókna sýnt að samband unglinga við foreldra sína og fjölskyldu skipti miklu máli fyrir þróun og þroska þeirra. Foreldrar eru ungu fólki mikilvægar og sterkar fyrirmyndir og eru lykilaðilar í félagslegu stuðningsneti þeirra. Þannig hafa rannsóknir t.d. sýnt að aðhald, eftirlit og stuðningur foreldra hefur jákvæð áhrif á námsárangur ungmenna og að þeir unglingar sem verja miklum tíma með foreldrum sínum og/eða eru vel tengdir þeim eru ólíklegri en aðrir unglingar til að leiðast út í notkun vímuefna lendi þeir í félagsskap þar sem vímuefnaneysla er algeng. Þess utan eru unglingar sem eiga stöðug og jákvæð samskipti við foreldra sína, og fá mikinn stuðning frá þeim, líklegri til að ganga vel í skóla og eignast vini þar sem svipað samskiptamynstur er uppi á teningnum."

Ungmennum á Fljótsdalshéraði líður almennt vel í skóla, finnst námið hafa tilgang og semur vel við kennara, en hér sem endranær er talsverður kynjamunur, stúlkur finna sig að jafnaði betur í námi en piltar. Virk þátttaka í íþróttastarfi hefur aukist en heldur hefur dregið úr þátttöku í öðru skipulögðu tómstundastarfi. Hér má finna skýrsluna „Hagir og líðan ungs fólks á Fljótsdalshéraði - Niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk á Fljótsdalshéraði árið 2010".