Skuggakosningar ungmennaráðs

Nýlega stóð ungmennaráð Fljótsdalshérað fyrir skuggakosningum í Menntaskólanum á Egilsstöðum og í efstu bekkjum grunnskóla á Fljótsdalshéraði og í Seyðisfjarðarkaupstað. Á Djúpavogi var kosið í 1. - 10. bekk.

Markmið skuggakosninganna var tvíþætt. Annars vegar að fá skoðun ungmenna á sameiningunni og hins vegar að vekja athygli á sameiningarmálum og hvetja kosningabær ungmenni til að mæta á kjörstað þann 26. október næstkomandi.
Það er skemmst frá því að segja að afgerandi meirihluti ungmenna sem greiddi atkvæði kýs með sameiningu sveitarfélaganna, eða 79% þeirra ungmenna sem kusu.

Í Menntaskólanum á Egilsstöðum kusu eingöngu þau með heimili í sveitarfélögunum fjórum og þar kusu 83% með sameiningu sveitarfélaganna fjögurra.

Í grunnskólum á Fljótsdalshéraði var niðurstaðan sú að 81% þeirra sem greiddu atkvæði kusu með sameiningu. Í Seyðisfjarðarskóla var kosning öllu jafnari en 56% kusu með sameiningu. Verið er að bíða eftir tölum úr Djúpavogsskóla, þar sem kosið var í 1. - 10. bekk. Ekki var hægt að kjósa í Borgarfjarðarskóla vegna fámennis á elsta stigi.

Gaman verður að sjá hvort að niðurstöður kosninga þann 26. október 2019 verða í samræmi við niðurstöður skuggakosninga.