Skreytingardagur í dag

Í dag, fimmtudag, er hinn formlegi skreytingadagur hverfanna vegna Ormsteitis. Íbúar hverfanna sex, gulir, bláir, appelsínugulir, bleikir, fjólubláir og grænir/rauðir, eru hvattir til að sameinast um að gera hverfin sín fín og skrautleg. Veittar verða viðurkenningar fyrir best skreytta hverfið, best skreyttu götuna og flottustu skreytingar á húsi. Að þessu sinni er það gula hverfið sem leiðir karnivalgönguna frá Sláturhúsinu upp á Vilhjálmsvöll á laugardaginn. 
 
Dagskrá Ormsteitis hefst svo á morgun, föstudag, með púttmóti eldri borgara kl. 10.00 í Skjólgarðinum bak við pósthúsið á Egilsstöðum. Klukkan 15.30 hefst dagskrárliðurinn Litlu lyngormarnir á stígnum fyrir neðan hjúkrunarheimilið Dyngju. Hér er um að ræða hjólreiðaviðburð á Nesinu milli Egilsstaða og Fellabæjar, hjólaþrautir og gaman fyrir alla fjölskylduna, ekki síst litla hjólalyngorma. Fellabakarí býður upp á kruðerí við brúna. Klukkan 19.00 bjóða svo Fellamenn gestum sínum heim til þess að sýna sig og sjá aðra, og bjóða alla velkomna fyrir utan heimili sín, í garðinn eða út á pall. 
 
Hægt er að sjá dagskrá Ormsteitis á www.ormsteiti.is og hér á pdf formi .