Skráningu í Urriðavatnssund lýkur um helgina

Urriðavatnssund verður laugardaginn 25. júlí. Hægt er að skrá sig til og með laugardeginum 18. júlí eða þar til 100 manns hafa skráð sig en það er hámarksfjöldi þátttakenda. Skráning öðlast ekki gildi fyrr en skráningargjaldið hefur verið greitt og skal það greiðast eigi síðar en 18. júlí. Nú á þriðjudegi eru þegar skráðir tæplega 60 þátttakendur.

Í boði eru 3 sundleiðir þ.e. 2500 m, 1250 m og 400 m. 2500 metra sundið er partur af Landvætta röðinni sem og Álkarlinum sem er nýtt og spennandi verkefni á vegum ÚÍA. Eins er í boði að synda 1250 metrana og þá eru þátttakendur gjaldgengnir í hálfkarlinn sem er samhliða Álkarlinum.

Sundið verður ræst að morgni laugardagsins 25. júlí út frá virkjanasvæði Hitaveitu Egilsstaða og Fella og eru Austfirðingar hvattir til að skrá sig til þátttöku eða þá koma bara og fylgjast með sundinu og hvetja keppendur áfram.

Kvöldið fyrir sundið skulu sundmenn sækja gögn sín í hús Hitaveitu Egilsstaða og Fella í Fellabæ (stendur norðan vegar, ca. 600 m frá enda Lagarfljótsbrúar). Til að fá gögn sín skal sundmaður afhenda undirritaðra yfirlýsingu vegna sundsins, ásamt kvittun fyrir greiðslu þátttökugjalds.

Allar nánari upplýsingar má sjá á vef HEF og Urriðavatnssund