Skorklukka gefin á Vilhjálmsvöll

Meðan á leikhléi stóð í fótboltaleik Hattar og KA á Vilhjálmsvelli, föstdaginn 15. júní, veitti bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs formlega viðtöku skorklukku sem Arion banki hefur gefið til að nota á Vilhjálmsvelli. Það var Guðmundur Ólafsson, útibússtjóri Arion banka á Egilsstöðum, sem afhenti Birni Ingimarssyni bæjarstjóra klukkuna en um leið var undirritað samkomulag um gjöfina sem jafnframt kveður á um rétt Arion banka til uppsetningar auglýsingaskilta á vallarhúsi næstu fimm árin.

Skorklukkan er ekki aðeins mikilvæg þegar kappleikir fara fram, heldur telur hún einnig tímann þegar hún er ekki notuð við kappleiki og er þannig til hagræðis fyrir alla þá fjölmörgu iðkendur sem nýta sér aðstöðuna á Vilhjálmsvelli. Hún bætir úr brýnni þörf fyrir slíkan búnað en Vilhjálmsvöllur hefur aldrei átt skorklukku, þrátt fyrir rúmlega 10 ára notkun sem aðalvöllur knattspyrnudeildar Hattar.

Á myndinni má sjá fyrir miðju þá Guðmund og Björn undirrita samkomulagið en með þeim eru Árni Ólason og Gunnlaugur Aðalbjarnarson, fyrir hönd Hattar og UÍA, sem eru þeir aðilar sem mest nota völlinn.