Skorað á Símann að bæta netsamband í dreifbýli

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs þann 4. september var tekin fyrir ályktun frá bæjaráði í liðinni viku varðandi fjarskiptasamband í dreifbýli.
Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og telur að við fyrsta tækifæri þurfi að gera verulegt átak til að bæta net- og fjarskiptasamband víða í dreifðum byggðum Fljótsdalshéraðs. Það á bæði við um þéttbýlið á Hallormsstað, Brúarási og Eiðum og einnig á einstökum sveitabæjum á Fljótsdalshéraði.
Vísað er til bréfs Símans dagsett 13.02.2013, en þar kemur fram að ekki verði uppfærður búnaður á Hallormsstað á árinu 2013. Í því bréfi er heldur ekki minnst á aðra hluta dreifbýlisins.

Bæjarstjórn beinir því til Símans að í framkvæmdaáætlun vegna ársins 2014, verði gert ráð fyrir að símstöðin á Hallormsstað uppfærð þannig að notendur þar njóti sambærilegra gæða í net- og sjónvarpsþjónustu og íbúar í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði. Jafnframt að skoðaðar verði aðrar símstöðvar í sveitarfélaginu td. í Brúarásskóla en hún þjónar næsta nágrenni, svo sem Hótel Svartaskógi og einnig verði símstöð á Eiðum skoðuð.
Einnig verði sérstaklega hugað að þeim svæðum í dreifbýli Fljótsdalshéraðs, þar sem netsambandi með stuðningi Fjarskiptasjóðs var ekki komið á, eða fengu ekki ásættanlega úrlausn mála í því átaki.

Fram hefur komið í svari frá Símanum að vegna breytts lagaumhverfis, eru netsambönd og uppfærsla símstöðva nú á könnu Mílu.  Síminn, Wodafone og önnur slík fyrirtæki geta svo leigt sér aðgang að þeim flutningsleiðum og búnaði sem Míla setur upp á hverjum stað. Samkvæmt þessu ætti Fljótsdalshérað því frekar að beina ofangreindu erindi sínu til Mílu.