Skólaþing haldið í Hallormsstaðaskóla

Í vikunni var haldið skólaþing í Hallormsstaðaskóla. Nemendur, foreldrar, starfsmenn og ýmsir aðilar úr stjórnsýslu beggja sveitafélaganna sem að skólanum standa unnu saman að stefnumótun. Staða skólans í dag var skoðuð og síðan settir niður á blað draumarnir um hvernig skólinn ætti að vera í framtíðinni. Loks var rætt um hvaða leiðir hægt væri að fara til að komast frá núverandi stöðu og í óskastöðuna. Hlustað var á alla, jafnt börn sem fullorðna, allir fengu jöfn tækifæri til að koma sínu sjónarmiði á framfæri. Niðurstöðurnar verða svo unnar áfram til að móta framtíðarsýn fyrir skólann.

Elín Rán Björnsdóttir, aðstoðarskólastjóri Hallormsstaðaskóla, segir að niðurstöðurnar hafi m.a. verið að flestir hóparnir hafi verið sammála um ágæti mötuneytis skólans. Að fámennið væri bæði kostur og galli, mikil nánd við kennara og gott foreldrasamstarf væru kostir. Einnig hafi verið mikið talað um verkgreina áherslu skólans, náttúruna, umhverfi skólans og útikennslu. Að helstu raunir skólans snéru að fámenninu og eins og aðrir skólar glíma við, fjárskortur. Þó hafi líka verið nefndir þættir eins og að það sé gott fyrir nemendur að læra að nýta vel alla hluti t.d. í verkgreinakennslu eins og textíl, en þar hafa nemendur nýtt ýmislegt að heiman og hafa flíkur fengið ný hlutverk.

Nokkrar skondnar tillögur komu fram eins og að setja kennara skólans í yngingavél og fá Fljótsdælinga til að greiða 150.000 krónur til allra sem vildu vera í skólanum. Elín Rán segir að gott hafi verið að fá tillögur á léttu nótunum í bland við alvöruna og hafi það létt lund allra viðstaddra.