Skólastarf hefst á ný á Fljótsdalshéraði

Í þessari viku hefst starf í grunnskólum Fljótsdalshéraðs. Alls eru um 520 grunnskólanemendur að mæta í skólana sína þessa dagana, þar af 55 nemendur sem eru að hefja nám í 1. bekk.  Aðstæður og starfsemi er með sama hætti og verið hefur í skólunum, þó er sú breyting í Egilsstaðaskóla að nú er allur skólinn í sameiginlegu húsnæði, en undanfarin 10 ár hefur 1. og 2. bekk verið kennt í Barnaskólanum á Eiðum og síðastliðinn vetur var 3., 4. og 5. bekkur í Alþýðuskólanum á Eiðum.  Nú er tekin í notkun hluti nýbyggingar við skólann á Egilsstöðum og með því rúmar skólinn alla nemendur á sama stað. Sá hluti nýbyggingarinnar sem nú er tekin í notkun eru kennslustofur yngstu nemenda og sérgreinastofur. 
Í Hallormsstaðaskóla hafa orðið skólastjóraskipti frá síðasta skólaári, Pétur Þorsteinsson hefur látið af störfum og við starfi skólastjóra Hallormsstaðaskóla tekur nú Helga Magnea Steinsson.