Skólahúsnæðið á Hallormsstað auglýst til sölu

Fljótsdalshérað og Fljótsdalshreppur auglýsa til sölu grunnskóla- og íþróttahúsnæðið á Hallormsstað.

Í umræddu húsnæði hefur hefur Hallormsstaðaskóli verið starfræktur undanfarna áratugi. Húsnæðið er staðsett í hjarta Hallormsstaðaskógar, víðsýnt er úr skólabyggingunni og umhverfið býður upp á óþrjótandi útivistarmöguleika.

Lýsing: Skólabyggingin var byggð á árunum 1963 til 1967, byggingu íþróttahúss lauk 1991 og sundlaugar árið 1993. Skólabyggingin er 1787 m2 og rúmar 14 heimavistarherbergi með snyrtingum og sturtu, nokkur minni kennslurými sem m.a. hafa hýst leikskólastarfsemi, 3 rúmgóðar kennslustofur og skrifstofur. Gott mötuneytiseldhús, matsalur og setustofa eru í húsnæðinu. Í kjallara eru 2 kennslustofur auk þvottahúss og geymslurýma. Íþróttahúsið er 660,5 m2 og hefur bæði gegnt hlutverki samkomusalar skólans og íþróttasalar. Í húsnæðinu eru snyrtingar og búningsklefar og auk þess rúmgóð kennslustofa með geymslu í kjallara. Sundlaugin er afgirt útilaug við hlið íþróttahússins.

Ástandslýsing: Húsið hefur verið notað sem skólahúsnæði á vetrum og heimavistarhúsnæði hefur verið leigt á sumrin til gistingar. Reglubundið viðhald hefur átt sér stað og ástand húsnæðisins í samræmi við það. Húsnæðið er hitað upp með orku frá kyndistöðinni Skógarorku.

Kauptilboð skal dagsett og undirritað af bjóðanda. Tilgreina skal fullt nafn bjóðanda, kennitölu, lögheimili og símanúmer.

Kauptilboði skulu fylgja upplýsingar um framtíðarrekstur og notkun hússins.

Kauptilboð skulu berast Fljótsdalshéraði, Lyngási 12, 700 Egilsstöðum, merkt „Kauptilboð – Tækifæri á Hallormsstað“, í síðasta lagi fyrir lok dags þriðjudaginn 30. júní 2015.

Áskilinn er réttur til að hafna tilboðum sem ekki eru frágengin með ofangreindum hætti, taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.

Nánari upplýsingar veita Hreinn Halldórsson, umsjónarmaður fasteigna Fljótsdalshéraðs, og/eða Helga Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Fljótsdalshéraðs.