„Skólahurð aftur skellur og skruddan með...“

Nú hefur öllum grunnskólum Fljótsdalshéraðs verið slitið þetta skólaárið og fram undan eru sumarleyfi með öðrum verkefnum. Alls luku 52 nemendur námi frá 10. bekk í skólunum fjórum. Síðustu skólaslitin voru frá Grunnskólanum Egilsstöðum og Eiðum, en þar var skólanum slitið 6. júní.

Sú venja hefur víða skapast að nemendur kveðja skólann sinn með ávarpi sem einn úr hópi útskriftarnema flytur og er sérstaklega ánægjulegt að hlusta á hversu sterk tengsl hafa skapast bæði innbyrðis í nemendahópnum og ekki síður við kennara og aðra starfsmenn skólans sem oft eru kvaddir með mörgum hlýjum orðum.
Hallormsstaðaskóli leggur í starfi sínu sérstaka rækt við kennslu í list- og verkgreinum og þar hefur sú hefð skapast að halda vorsýningu á verkum nemenda og þar getur að líta ótrúlega fallega og fjölbreytta muni sem bera eigendum sínum vott um ríka sköpunargleði og gott handbragð. Á skólaslitum í Hallormsstaðaskóla gafst bæði kostur á að skoða handverks- og listsýningu nemenda og fylgjast með danssýningu yngstu nemenda sem hafa fengið dansþjálfun hjá Fiðrildunum í vetur.