Skólahreysti í Íþróttamiðstöðinni

“Skólahreysti”, hreystikeppni grunnskólanna í landinu verður haldin í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöum fimmtudaginn 1. mars og hefst kl. 16:00. Skráðir eru 10 skólar af Austurlandi í keppnina svo hún verður án efa góð og skemmtileg fyrir þátttakendur sem og áhorfendur.

Hreystiþrautir eru byggðar upp á svipaðan hátt og ýmis leiktæki á leikvöllum sveitafélaga og tengir því saman leik og íþrótt.  Hreysti er ekki öfgakennd íþrótt heldur íþróttagrein sem allir geta stundað og prófað og haft gaman af.  Það sem er mjög jákvætt við þrautirnar er að keppendur eru einungis að vinna með eigin líkama og þrautirnar þjálfa grunnhreyfifærni einstaklinga.


Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu varðandi  hreyfingarleysi og holdafar barna og unglinga og á sama tíma hefur verið aukið framboð á afþreyingu sem felur í sér kyrrsetu.  Til að sporna við þessari þróun er mikilvægt að þróa aðferðir til að gera hreyfingu að eftirsóknarverðum og skemmtilegum valkosti fyrir börn og unglinga.
 
Síðastliðið vor fór fram grunnskólakeppni í Skólahreysti í samvinnu við Osta og Smjörsöluna, Menntamálaráðuneytið, Skólaíþróttanefnd ÍSÍ og Toyota.   Boðaðir voru til leiks 44 grunnskólar með 9. og 10. bekkjum  á Stór-höfuðborgarsvæðinu.  Keppnislið úr 42 skólum mættu til leiks og kepptu í 5 undankeppnum.  Tíu lið kepptu til úrslita í Laugardalshöll í beinni útsendingu í opinni dagskrá.  Mikill áhugi var meðal nemenda á Skólahreysti og gaf þetta íþróttakennurum skólanna möguleika á að leggja áherslu á grunnþjálfun nemenda og vinna meira með líkamlegar æfingar sem undirbúning fyrir þessa keppni.  Áhersla var lögð á að gera keppendur sýnilega og að þeir væru í aðalhlutverki.
 
Skólahreysti er skemmtileg  viðbót við söngva og spurningakeppnir skólanna þar sem Skólahreysti reynir á líkamlegt og andlegt atgervi og sýnir hrausta unglinga í leik.  Þá er keppnin góð viðbót við skólastarf á Íslandi og ein leið til að auka íþróttaleg samskipti grunnskóla.
 
Stjórnendur skólanna  og íþróttakennarar tóku Skólahreysti mjög vel og höfðu margir skólar forkeppnir innan skólanna til að velja nemendur í liðin.   Þá höfðu fjölmargir skólar utan höfuðborgarsvæðisins samband og óskuðu eftir því að fá að taka þátt.
 
Með þetta í huga ætlar Icefitness að halda Skólahreysti á landsvísu árið 2007 og gefa þeim 140  grunnskólum á Íslandi sem eru með níunda og tíunda bekk möguleika á þátttöku. Keppendafjöldi er um 550 unglingar.  Keppt verður í tíu forkeppnum sem fara fram um allt landið.  Tíu til fjórtán skólar keppa í hverri forkeppni.
Stigahæsta liðið  úr hverri forkeppni mun síðan keppa í úrslitum í Laugardalshöll.
 
Skjár 1 mun gera Skólahreysti góð skil.  Það verður gerður 50 mín. þáttur um hverja forkeppni sem sýndur verður á þriðjudagskvöldum kl.20.00.  Úrslitin verða í beinni útsendingu.