Skólahaldi verður hætt á Hallormsstað í vor

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í gær að hætta skólahaldi á Hallormsstað. Aðein 10 börn eru í skólanum þetta skólaár. Unnið verður að nýjum samningi um samstarf við Fljótsdalshrepp um samstarf í skólamálum.

Á fundinum var eftirfarandi tillaga lögð fram og samþykkt samhljóða með handaruppréttingu.

„Hallormsstaðaskóli á farsæla sögu allt frá því skólinn var settur í fyrsta sinn í upphafi árs 1967. Undanfarin ár hefur börnum í skólahverfi skólans hins vegar farið stöðugt fækkandi og sum þeirra sækja skólavist í aðra skóla en sinn heimaskóla. Nemendur Hallormsstaðaskóla fylla á skólaárinu 2014-2015 aðeins einn tug. Þar sem ekki eru vísbendingar um breytingar á þessari þróun er það mat þeirra sem að skólanum standa, þ.e. sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, að ekki séu lengur forsendur fyrir að skólahaldi í Hallormsstaðaskóla verði haldið þar áfram og er lagt til að því verði hætt frá og með næsta skólaári. Í framhaldi af því þurfa sveitarstjórnirnar að skipa sem fyrst starfshóp sem fái það verkefni að vinna drög að nýjum samningi á milli sveitarfélaganna um samstarf í grunn,-leik- og tónlistarskólaþjónustu

Jafnframt taki sveitarstjórnirnar afstöðu til þess hvernig skuli farið með þær eignir er hýst hafa skólastarf á Hallormsstað á umliðnum árum.

Í starfshópnum sitji oddviti Fljótsdalshrepps, ásamt öðrum fulltrúa frá Fljótsdalshreppi og bæjarstjóri Fljótdalshéraðs, ásamt öðrum fulltrúa frá Fljótsdalshéraði. Með hópnum starfi fræðslufulltrúi og starfsmaður eignasviðs Fljótsdalshéraðs. Stefnt verði að því að starfshópurinn taki sem fyrst til starfa og að drög að nýjum samningi milli sveitarfélaganna liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2015. Bæjarráði verði falið að ganga frá skipan í starfshópinn.

Bæjarstjórn óskar eftir því við fræðslunefnd að hún fjalli um frágang við lok skólahalds á Hallormsstað í samráði við sveitarstjórn Fljótsdalshrepps. Afgreiðsla bæjarráðs að öðru leyti staðfest.“