- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Skógardagurinn mikli verður haldinn í tíunda sinn í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 21. júní. Dagskráin er margbreytileg að venju. Hin fornfræga hljómsveit Dúkkulísurnar stígur á svið, en nú eru 30 ár liðin frá því að sveitin stóð á sviði í Hallormsstaðaskógi síðast. Svo er spurning hvort skógarhöggsmenn á Austurlandi ná Íslandsmeistaratitlinum í skógarhöggi aftur austur.
Dagskráin hefst reyndar kvöldið áður, föstudagskvöldið 20. júní, þegar Landssamtök sauðfjárbænda og sauðfjárbændur á Austurlandi bjóða til veislu í Mörkinni á Hallormsstað. Þar verður grillað lambakjöt og tónlistarfólk skemmtir gestum á sviði.
Um hádegi á laugardag hefst svo sjálfur Skógardagurinn mikli með Skógarhlaupinu þar sem hlaupnir verða 14 kílómetrar um skógarstíga. Skráning hefst kl. 11 en ræst verður kl. 12. Einnig er í boði skemmtiskokk, 4 km. hlaup fyrir alla, ræst kl. 12.15.
Formleg dagskrá hefst síðan kl. 13 í Mörkinni Hallormsstað með Íslandsmeistara-mótinu í skógarhöggi. Þar er heitasta spurningin hvort hraustir skógarhöggsmenn eystra ná titlinum aftur austur en sigurvegari í fyrra var Örn Arnarson sem keppti fyrir Skógrækt ríkisins á Suðurlandi.
Skógar- og nautabændur bjóða upp á heilgrillað naut og með því, grillaðar verða pylsur en líka soðið ketilkaffi og steiktar lummur að hætti skógarmanna. Af skemmti-atriðum má nefna Héraðsdætur og Liljurnar, Pjakk og Petru og hestaleiguna á Hallormsstað sem sér um að teyma undir börnum svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst verður að nefna kvennahljómsveitina Dúkkulísurnar sem stóð síðast á sviði í Hallormsstaðaskógi fyrir 30 árum. Sjá hér.
Skógardagurinn mikli er samvinnuverkefni Skógræktar ríkisins, Héraðs- og Austurlandsskóga, Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra gróðrarstöðvar og Skógræktarfélags Austurlands.