SKÍS gefur 6 og 7 ára börnum kort á skíðasvæðið

Ungur keppandi á Fjarðaálsmótinu 2016. Af vef skíðasvæðisins stafdalur.is
Ungur keppandi á Fjarðaálsmótinu 2016. Af vef skíðasvæðisins stafdalur.is

Í ár, líkt og í fyrra, gefur Skíðafélagið í Stafdal öllum 6 og 7 ára börnum á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði kort á skíðasvæðið í Stafdal.

Kortin eru merkt með nafni hvers barns. Þau gilda frá áramótum og þar til svæðið lokar í vor. Það er von skíðafélagsins að kortin hafi hvetjandi áhrif á börnin og fjölskyldur þeirra að kynna sér þessa hollu og góðu fjölskylduíþrótt sem skíðamennskan er.

Skíðafélagið í Stafdal sér um rekstur skíðasvæðisins og er svæðið sameiginleg útivistarparadís íbúa Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Á svæðinu eru þrjár lyftur og er þar einnig rekin skíða- og brettaleiga. Í fjallinu er góð aðstaða í skíðaskálanum, þar sem hægt er að setjast niður og borða nesti eða gæða sér á veitingum sem seldar eru í skálanum.