Skilaboð frá forvarnafulltrúum – til umhugsunar!

MYndin er tekin af vef Vísindavefsins.
MYndin er tekin af vef Vísindavefsins.

Í janúar sameinuðust sveitarfélögin Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Seyðisfjarðarkaupstaður um fræðslu um rafrettur, skaðsemi þeirra og úbreiðslu. Það var Björg Eyþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og MA nemi í heilbrigðisvísindum, sem sá um að fræða bæði unglinga í grunnskólum sveitarfélaganna, ungmenni í Menntaskólanum á Egilsstöðum og foreldra/forráðafólk í sveitarfélögunum þremur.

Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um rafsígarettur (rafrettur/vape/veip) á síðustu misserum. Augljóst er að skoðanir fólks á þeim eru mismunandi. Einhverjir halda fram algjöru skaðleysi rafrettanna, vökvans og gufunnar sem notendur anda að sér. Á meðan aðrir vísa í rannsóknir sem benda til skaðsemi rafrettunotkunar. Það er ljóst að langt er í að óyggjandi niðurstöður verða til um skaðsemi rafsígarettanna, en það sem er vitað er eftirfarandi:

  • Um 1/3 unglinga í elstu bekkjum grunnskóla á Íslandi hafa prófað rafrettur.
  • Notkun rafretta hefur stóraukist á síðustu tveimur árum og fjölmörg ungmenni byrja að nota rafrettur án þess að hafa nokkurn tíman reykt.
  • Gufa frá rafrettunum getur angrað, burtséð frá magni nikótíns í vökvanum.
  • Stærstur hluti rafrettuvökva inniheldur nikótín en nikótín er afar ávanabindandi.
  • Rafrettuvökvi inniheldur yfirleitt krabbameinsvaldandi efni, t.d. própýlenglýkól.
  • Rafrettur eru gjarnan auglýstar sem skaðlausar, töff og hægt að nota hvar sem er. Þá er markaðssetningu gjarnan beint að ungu fólki, og jafnvel börnum, þar sem litrík tæki og vökvi með sælgætisbragði eru kynnt.
  • Auglýsingar fyrir rafrettur og rafrettuvökva minnir óþægilega á auglýsingar fyrir sígarettur og tóbak fyrir nokkrum áratugum síðan.
  • Skammtímarannsóknir sýna fram á slæm áhrif á lungu og öndunarfæri, auk nikótínáhrifa.
  • Upp hafa komið tilfelli þar sem rafrettur springa í andlit fólks.
  • Rafrettuvökvi hefur verið illa og/eða vitlaust merktur. Nikótín finnst í vökva sem átti að vera nikótínlaus og meira magn nikótíns en sagði á pakkningu.
  • Áhrif nikótíns
  • Notkun rafretta getur valdið nikótínfíkn, en nikótín hefur slæm áhrif á heilaþroska unglinga.
  •  Nikótín virðist geta örvað vöxt krabbameinsfruma þó það sé sjálft ekki krabbameinsvaldandi.

Því er beint til foreldra og forráðaaðila á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og á Seyðisfirði að ræða þessi mál við börnin sín og letja til notkunar rafretta, líkt og við gerum við tóbak og önnur vímuefni. Þá er vakin athygli á því að þær vefsíður sem selja rafrettur og rafrettuvökva bjóða margar hverjar upp á varninginn sendan frítt heim og hvergi nokkur leið til að staðfesta aldur kaupandans.

Við hvetjum einnig söluaðila rafretta og rafrettuvökva að virða aldurstakmark við sölu varningsins og að leyfa þannig unga fólkinu okkar að njóta vafans.

Bjarki Ármann Oddsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi í Fjarðabyggð
Bylgja Borgþórsdóttir, verkefnastýra íþrótta-, tómstunda- og forvarnamála á Fljótsdalshéraði
Eva Jónudóttir, forvarnafulltrúi á Seyðisfirði
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hér er hægt að fræðast enn frekar um rafrettur:

Fyrirlestur um rafsígarettur á Tóbaksvarnarþingi sem haldið var í Hörpu 14. Mars 2017: https://www.krabb.is/fraedsla-forvarnir/vefvarp/rafsigarettur-undur-eda-ogn
Skýrsla Dr. Charlotte Pisinger frá 2015 um heilsufarsáhrif rafsígaretta: http://bit.ly/2j13Tab
Grein á Vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=70681
Who.int
Krabb.is