Skíðagöngubraut á Fjarðarheiði

Skíðagöngubraut hefur verið lögð á Fjarðarheiði. Brautin er norðan Seyðisfjarðarvegar, miðja vegu milli Miðhúsaárbrúar og afleggjara að Gagnheiði, þegar ekið er frá Egilsstöðum.

Brautin er að jafnaði troðin síðdegis, með sérstökum vélsleða, en það er þó háð veðri hverju sinni. Það eru félagar í svokölluðum Vasa-gönguhópi sem sjá um lagningu brautarinnar. En hópinn skipa einstaklingar á Héraði sem eru að æfa fyrir Vasa-gönguna sem fram fer í Svíþjóð. Öllum er velkomið að nota brautina.

Fyrirhugað er að leggja einnig göngubrautir í Selskógi þegar aðstæður leyfa, en núna er snjór þar of lítill.