Skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði

Sumarið 2019 standa Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað að Skapandi sumarstörfum, samvinnuverkefni sveitarfélaganna sem miðar að því að ráða til starfa einstaklinga og hópa sem hafa áhuga á að efla listsköpun sína og um leið glæða sveitarfélögin lífi með listrænum og skapandi uppákomum.

Í sumar réðust til starfa níu öflug ungmenni á aldrinum 17-23 ára og hófu þau störf í byrjun júní. Í hópnum eru Almar Blær Sigurjónsson, Aron Steinn Halldórsson, Benjamín Fannar Árnason, Bríet Sigurjónsdóttir, Hildur Vaka Bjarnadóttir Klausen, Ívar Andri Bjarnason Klausen, María Jóngerð Gunnlaugsdóttir, Natalía Gunnlaugsdóttir og Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir.

Með fyrstu verkefnum var að finna nafn á hópinn og úr varð að þau kalla sig „Orðið er LAust – Listahópur Austurlands".

Þó svo að aðeins um mánuður sé liðinn síðan Orðið er LAust hóf störf er óhætt að segja að hópurinn hafi haft nóg fyrir stafni. Þau fengu dansnámskeið hjá Auði Snorradóttur og upp úr því var samið verkið „Ringulreið eða regla" sem flutt var á Eskifirði þann 12. júní, þar var sama dansrútínan endurtekin í 100 mínútur eða u.þ.b. 80 sinnum.

Ásamt dansnámskeiðsins hjá Auði Snorradóttur hefur hópurinn einnig fengið námskeið í ritlist frá Viktoríu Blöndal og listmeðferð frá Írisi Lind Sævarsdóttur. Markmiðið er að hópurinn efli listsköpun sína með reglulegum heimsóknum og samstarfi við starfandi listamenn.

Hópurinn hefur farið í heimsóknir í leikskóla og flutt bæði frumsamin verk og unnið leikverk upp úr sígildum sögum.

Við hátíðarhöldin á 17. júní var mikið um að vera hjá hópnum á Egilsstöðum, en þar birtust hátíðargestum litríkar persónur sem buðu upp á margvíslega afþreyingu m.a. karókí, einnar línu teikningar og danshorn. Einnig vígði hópurinn Kærleiksbrúna í Tjarnargarðinum sem þau höfðu málað í regnbogalitunum og leiddi hún gesti í Kærleikslundinn. Í lundinum var sett upp heilunarmiðstöð sem innihélt m.a. hugleiðsluhorn, frumsamin ljóð skrifuð á staðnum og róandi tónlistarspuna.

Þá hefur hópurinn einnig m.a. staðið fyrir pop-up viðburðum m.a. í miðbæ Egilsstaða og við skipakomur í Eskifirði.

Stúlkurnar í hópnum tóku þátt í kvenréttindadeginum hjá Alcoa Fjarðaáli þann 19. júní þar sem þær voru með ádeiluatriði á hatursorðræðu gegn kvenfólki í textum vinsælla íslenskra laga.

Sveitarfélögin réðu Emelíu Antonsdóttur Crivello sem verkefnastjóra yfir verkefninu en hún hefur það hlutverk að móta og halda utan um starf ungmennanna og leiða þau áfram í sinni vinnu. Þó er stefnt að því að meðlimir hópsins vinni sem mest sjálfstætt og móti sitt starf þær vikur sem þau eru við störf.
Það verður skemmtilegt að fylgjast áfram með því hvað þessi hæfileikaríki hópur tekur sér fyrir hendur í sumar, til að efla sig í sinni listsköpun og gleðja okkur, íbúa sveitarfélaganna og gesti.

Orðið er LAust – Listahópur Austurlands er bæði á Facebook og Instagram og er virkilega gaman að fylgjast með því sem hópurinn er að brasa dag frá degi.